149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í máli nr. 9, um mannanöfn. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um mannanöfn. Um leið falli úr gildi gildandi lög um mannanöfn, nr. 45/1996. Markmið frumvarpsins er að tryggja sem ríkastan rétt og sjálfræði fólks til að bera það nafn eða þau nafn sem það kýs og jafnframt frelsi fólks til þess að skilgreina kyn sitt. Þá er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott.

Nefndin fjallaði um ýmis atriði málsins, svo sem val einstaklinga á eiginnöfnum og kenninöfnum og skilgreiningar kenninafna, ábyrgð og aðkomu foreldra og forsjáraðila að nafnbreytingum barna, skráningu kyns í þjóðskrá, nöfn sem eru nafnbera til ama, mannanafnanefnd og reglugerðarheimild ráðherra.

Fyrst skal fjallað um íslenska nafnahefð og íslenskt málkerfi. Markmið frumvarpsins er að fólk verði frjálst til að bera þau nöfn sem það vill. Minni hlutinn telur þó íslenska mannanafnahefð mikilvæga arfleifð sem beri að sýna virðingu og kynna vel fyrir öllum þeim sem velja börnum nöfn eða sjálfum sér á fullorðinsaldri. Minni hlutinn sér hins vegar ekki hvernig mögulegt er að festa slíkt í lög án þess að ganga freklega á það frelsi sem hér er að stefnt að tryggja. Að mati minni hlutans hafa ekki komið fram nein sannfærandi rök fyrir því að íslensku máli stafi hætta af erlendum mannanöfnum. Erlend mannanöfn hafa bæst í mannanafnaforðann frá upphafi Íslandsbyggðar án þess að skaða málkerfið. Lög um mannanöfn ná enn fremur eingöngu til íslenskra ríkisborgara, en hér er og mun alltaf verða mikill fjöldi erlendra ríkisborgara sem þarf að tala við, tala um og skrá hjá hinu opinbera og geta nöfn þeirra verið ýmsu móti. Þótt vissulega steðji ógnir að íslenskri tungu á stafrænni öld fær minni hlutinn ekki séð að nöfn útlendinga á Íslandi hafi verið eða séu á meðal þeirra ógna.

Þá skal fjallað um sennilega umdeildasta þátt laga um mannanöfn, mannanafnanefnd. Í lögum um mannanöfn er mannanafnanefnd falið nokkuð viðamikið hlutverk en með samþykkt þessa frumvarps yrði ekki þörf fyrir slíka nefnd lengur, enda talsvert minni skorður við því hvaða nöfn einstaklingar geti tekið sér. Í frumvarpinu er því lagt til að leggja nefndina niður. Mannanafnanefnd hefur þó sinnt hlutverki sem er þess virði að halda í, svo sem að vera til ráðgjafar og leiðbeiningar fyrir almenning um mannanöfn og hefðir við nafngjöf því að merkilegt nokk þykir Íslendingum vænt um nafnahefðina og hafa því leitað eftir áliti nefndarinnar algjörlega óþvingað og án tillits til ákvörðunarvalds hennar. Minni hlutinn telur mikilvægt að áfram verði slík ráðgjöf og leiðsögn til staðar en sér hins vegar ekki ástæðu til að halda sérstaka nefnd um það. Því leggur minni hlutinn til að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fái að lögum það hlutverk að vera til ráðgjafar fyrir almenning um mannanöfn, mannanafnahefðir, rithátt og beygingar. Innan þeirrar merkilegu stofnunar eru bæði nafnfræði- og málræktarsvið sem væru vel til þess fallin að takast á við það verkefni.

Þá skal fjallaði um eiginnöfn og kenninöfn. Lagt er til í frumvarpinu að reglur um myndun nafna verði rýmkaðar verulega. Ekki verður lengur kveðið á um millinöfn en einstaklingi verður heimilt að velja sér þann fjölda eiginnafna sem hann kýs sem og kenninöfn.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að ekki verði lengur kveðið á um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn enda engin ástæða til að setja fólki slíkar skorður. Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins segir að kenninöfn séu mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum komi nafn foreldris eða foreldra í eignarfalli að viðbættum viðskeytunum son, dóttir, barn eða bur. Nú er ekki víst að nöfn foreldra taki alltaf með sér sérstaka eignarfallsmynd og leggur minni hlutinn til breytingar sem taka mið af þeirri staðreynd. Auk þess leggur minni hlutinn til að einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá sé heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli í kenninafni án viðbótar. Er sú breyting einnig í samræmi við frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði sem varð blessunarlega nýlega að lögum.

Þá var nefndinni bent á mikilvægi þess að áfram verði heimilt að kenna börn til stjúpforeldris eða fósturforeldris. Minni hlutinn leggur því til að bæta slíkri heimild við 1. gr. frumvarpsins.

Þá skal fjallað um aðkomu foreldra og forsjáraðila að nafnbreytingum. Í frumvarpinu segir að foreldrar beri ábyrgð á tilkynningu óháð því hvort barni sé gefið nafn við athöfn hjá skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða ekki. Í nefndinni komu fram þær athugasemdir að þetta gæti valdið vandræðum ef foreldrar fara ekki sameiginlega með forsjá barns. Minni hlutinn leggur því til að í stað orðsins „foreldrar“ í tilheyrandi málslið komi „þeir sem fara með forsjá barns“. Að auki leggur minni hlutinn til orðalagsbreytingar á því hvernig barni er gefið nafn samkvæmt 2. gr.

Þá komu fram athugasemdir um að rétt væri að börn sem hefðu náð 15 ára aldri hefðu möguleika til að breyta nafni sínu án samþykkis forsjáraðila. Það væri í samræmi við hugmyndir um stigvaxandi ákvörðunarrétt barna eftir aldri og þroska. Minni hlutinn telur rök standa til þess að heimila börnum 15 ára og eldri sem náð hafi þroska til að taka afstöðu til slíkra breytinga að geta breytt nafni sínu án aðkomu forsjáraðila. Þá skipti einnig máli að transfólk á þessum aldri geti breytt um nafn þrátt fyrir andstöðu forsjáraðila. Á móti komu fram sjónarmið um að varhugavert væri að börn 15 ára og eldri gætu breytt nafni sínu án nokkurrar aðkomu forsjáraðila. Munur væri á því annars vegar að vilji barns og afstaða fengi aukið vægi eftir því sem aldurinn þroski ykist og hins vegar því að taka burt ábyrgð, bæði forsjáraðila og stjórnvalda í málum sem varða börn. Mikilvægt væri að börn nytu lágmarksverndar í þessum efnum af hálfu löggjafans, stjórnvalda og forsjáraðila, ekki síst ef verið væri að auka frjálsræði á sviði nafngifta almennt. Sambærilegt álitamál kom upp við athugun nýsamþykkts máls um kynrænt sjálfræði sem var blessunarlega samþykkt nýlega af hinu háa Alþingi. Minni hlutinn telur rétt að gæta samræmis við aldursviðmið þeirra laga en í þeim voru aldursviðmið til að breyta skráningu kyns og nafni samhliða því hækkuð í 18 ár en hins vegar verður starfshópi samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II falið að endurskoða hvort lækka eigi aldursviðmið á rétti til að breyta skráningu kyns. Minni hlutinn tekur fram að æskilegt sé að lög um mannanöfn verði einnig endurskoðuð í þessu tilliti, samanber það sem hér var rakið á undan.

Þá skal fjallað um nöfn sem eru nafnbera til ama. Í lögum um mannanöfn er að finna ákvæði um að eiginnafn skuli ekki vera nafnbera til ama. Í frumvarpinu er ekki slíkt ákvæði að finna en í greinargerð segir m.a. að foreldrum eigi almennt að treysta til að velja börnum sínum nöfn sem verði þeim ekki til ama. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að hafa heimild í lögum til að bregðast við nafngiftum sem orðið gætu börnum til ama og löggjafinn ætti áfram að fela opinberum aðilum að framfylgja slíkri kvöð þrátt fyrir að mannanafnanefnd yrði lögð niður. Minni hlutinn tekur undir mikilvægi þess að tryggja þurfi með einhverjum hætti að börn þurfi ekki að bera nöfn sem ætla má að verði þeim til ama.

Minni hlutinn leggur þess vegna til að bætt verði við nýju ákvæði sem kveður á um að ef Þjóðskrá Íslands berist tilkynning um eiginnafn barns yngra en 18 ára sem ætla má að miklar líkur séu á að geti orðið nafnbera til ama skal nafnið ekki skráð að svo stöddu í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands verður auk þess falið að kveða upp úrskurð í þeim efnum svo fljótt sem verða má og eigi síðar en fjórum vikum frá því að tilkynning um eiginnafn barst.

Þá leggur minni hlutinn til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að afla umsagnar Stofnunar Árna Magnússonar og umboðsmanns barna áður en hún kveður upp úrskurð. Skal ráðherra kveða nánar á um málsmeðferð í þessum tilvikum í reglugerð.

Þá leggur minni hlutinn til að Þjóðskrá Íslands taki við því verkefni að sjá um mannanafnaskrá þannig að enn verði aðgengileg skrá þar sem hægt sé að fletta upp þekktum og samþykktum eiginnöfnum.

Þá skal fjallað um reglugerðarheimild ráðherra. Þau sjónarmið komu fram við umfjöllun nefndarinnar að með því að aflétta takmörkunum sem áður voru á vali einstaklinga á nafni standi eftir ýmsir tæknilegir þættir sem huga verði að, t.d. hvort rétt sé að kveða á um hámarkslengd nafna, hvort heimilt verði að nota önnur stafróf en hið íslenska og ef svo, hvernig skuli skrá þau, hvort nota megi tákn í nafni o.s.frv. Slíkir þættir um skráningu nafna eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og því er ekki nauðsynlegt að löggjafinn setji nákvæmar reglur sem geta breyst reglulega. Minni hlutinn telur því æskilegt að kveða á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð með nánari fyrirmælum um framkvæmd laganna, m.a. um rithátt, umritunarreglur og miðlun nafna og leggur til breytingu þess efnis til skýringar við þá reglugerðarheimild sem þegar er til staðar í 7. gr. frumvarpsins.

Þá skal fjallað um réttindi transfólks og skráningu kyns í þjóðskrá. Í dag geta einstaklingar einungis sótt um að nafn og kyn verði leiðrétt í þjóðskrá eftir að hafa verið í ferli til kynleiðréttingar í 18 mánuði. Sækja verður slíkt leyfi hjá sérfræðiteymi innan Landspítalans. Nafn er mikilvægur þáttur í sjálfsmynd einstaklings og getur það verið mjög hamlandi ef stjórnvöld standa í vegi fyrir því að trans einstaklingur breyti nafni sínu til samræmis við kynvitund sína. Það að geta ráðið eigin nafni án aðkomu stjórnvalda ætti að vera sjálfsagður réttur hvers einstaklings og myndi um leið fela í sér talsverða réttarbót fyrir þennan hóp að mati minni hlutans.

Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á öðrum lögum, nefnilega barnalögum og lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Í 1. tölulið 9. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á barnalögum þess efnis að heimilt verði að skrá kyn barns í þjóðskrá sem karlkyn, kvenkyn eða annað/órætt. Í b-lið 2. töluliðar 9. gr. er jafnframt kveðið á um að við 8. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu bætist ný málsgrein sem segir að breytingar á skráningu kyns skuli háðar sömu takmörkunum og breytingar á skráningu nafna samkvæmt lögum um mannanöfn.

Minni hlutinn leggur til að þessi tvö atriði verði felld brott, þ.e. 1. töluliður og b-liður 2. töluliðar 9. gr. frumvarpsins, með hliðsjón af nýsamþykktum lögum um kynrænt sjálfræði, en þar er fjallað um heimildir einstaklinga til að breyta skráðu kyni sínu í þjóðskrá. Með því að heimilt verði að skrá kyn hlutlaust fellur um sjálft sig skilyrði um að allir verði að bera annaðhvort karlmanns- eða kvenmannsnafn. Með frjálsri skráningu og/eða hlutleysisskráningu kyns er augljóst að nafn getur ekki lengur verið afgerandi um það hvers kyns sá er sem nafnið ber.

Þá skal fjallað um gildistöku frumvarpsins verði það samþykkt. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um vandkvæði þjóðskrár og annarra aðila vegna þess að gagna- og upplýsingakerfi væru ekki í stakk búin til þess að takast á við þær breytingar sem frumvarpið felur í sér. Bæði þyrfti tíma og fjármagn til að takast á við nauðsynlegar breytingar og einnig þyrfti Stofnun Árna Magnússonar ráðrúm til að undirbúa sig undir nýjar skyldur og verkefni. Þó skal þess getið að breytingarnar sem þetta frumvarp felur í sér eru að allnokkru leyti hinar sömu og eru þegar fyrirhugaðar vegna nýsamþykktra laga um kynrænt sjálfræði. Minni hlutinn telur þó rétt að koma til móts við þessi sjónarmið og leggur því til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020 en jafnframt verði veittur frestur til 1. júlí 2021 til að laga eyðublöð, skráningarform og þess háttar.

Síðast leggur minni hlutinn til bráðabirgðaákvæði sem kveði á um að við gildistöku laganna verði millinöfn skráð sem eiginnöfn í þjóðskrá en að nafnberum verði heimilt að breyta þeirri skráningu og láta skrá umrædd nöfn sem kenninöfn í samræmi við ákvæði laganna kjósi þeir svo.

Rétturinn til nafns nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi undanfarna áratugi þar sem markviss skref hafa verið stigin til þess að auka frelsi einstaklingsins til að taka ákvarðanir um eigin hagi. Þegar litið er til þess hvert hlutverk löggjafans er varðandi mannanöfn er nauðsynlegt að haft verði í huga að ekki verði gengið lengra en nauðsyn krefur og að réttindi einstaklinga verði ekki skert að óþörfu. Með samþykkt frumvarpsins verður verulega dregið úr þeim skorðum sem einstaklingum hafa verið settar um nafngjöf.

Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og finna má á þskj. 1915. Undir álit þetta rita hv. þingmenn, sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir áliti minni hlutans við afgreiðslu málsins úr allsherjar- og menntamálanefnd. Þó er við hæfi að bregðast við þeim rökstuðningi sem birtist í nefndaráliti meiri hlutans. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Aftur á móti komu fram sjónarmið um að frumvarp þetta leiddi til nýrra og jafnvel ófyrirsjáanlegra álitaefna. Þá skorti í einhverjum tilvikum nánari útfærslu á fyrirkomulagi og/eða skýringar í greinargerð um ástæður þess að ekki væri kveðið á um t.d. ráðgjöf um nafngift, rithátt, röð nafna, millinöfn, mannanafnaskrá eða amaákvæði. Auk þess var nefndinni bent á mikilvægi þess að taka tillit til íslenskrar tungu, íslensks málkerfis og íslenskrar nafnahefðar.“

Rétt er að fjalla örstutt um þessi álitaefni. Þau eru af tvennum toga, annars vegar þeim að ekki er um ófyrirsjáanleg álitaefni að ræða heldur pólitísk álitaefni sem hv. þingmenn eru einfaldlega ósammála um og hins vegar álitaefni sem brugðist er við með mjög skýrum hætti í áliti minni hlutans.

Hvað varðar ráðgjöf um nafngift leggur minni hlutinn til að hún verði í höndum Árnastofnunar. Hvað varðar rithátt verður hann frjáls en takmarkaður af tæknilegum atriðum sem tilgreind verða í reglugerð ráðherra. Vera má að hv. þingmenn séu á móti því að hann sé gerður frjáls en í því felst enginn ófyrirsjáanleiki sem ekki er brugðist við í áliti minni hlutans. Hvað varðar röð nafna kemur eiginnafn á undan kenninafni og er erfitt að sjá hvernig það geti talist til álitaefnis, hvað þá ófyrirsjáanlegs álitaefnis.

Hvað varðar millinöfn er ljóst í áliti minni hlutans að eiginnöfn og kenninafn taki þeirra stað og að fólk sem nú ber millinöfn geti valið á milli þeirra. Aftur getur hér verið um þá pólitísku afstöðu hv. þingmanna að ræða að sú breyting sé slæm, en þeir hafa ekki rökstutt hvers vegna. Óháð því er ekkert ófyrirsjáanlegt við það álitaefni.

Hvað varðar mannanafnaskrá kemur fram í áliti minni hlutans að Þjóðskrá Íslands skuli halda slíka skrá þannig að komið er til móts við það.

Hvað varðar amaákvæði kemur einnig fram í áliti minni hlutans að þjóðskrá skuli ekki skrá nafn sem talið er barni til ama. Það eru hins vegar engin rök fyrir því að láta amaákvæðið ná til ákvarðana fullorðins fólks, í það minnsta ekki í frjálsu landi.

Hvað varðar tillit til íslenskrar tungu, íslensks málkerfis og íslenskrar nafnahefðar er komið til móts við sjónarmiðið með því að fela Árnastofnun ráðgjöf og leiðsögn. Einnig er um að ræða pólitískan ágreining sem er eðlilegur en þó ekki ófyrirsjáanlegt álitaefni.

Virðulegi forseti. Að lokum verð ég að láta fylgja nokkur orð frá mér sjálfum sem ég get ekki sagt í nafni annarra sem rita undir álitið þótt ég voni innilega að þeir taki undir. Að öllu þessu sögðu er þess virði að fjalla aðeins um tilgang frumvarpsins, einstaklingsfrelsið. Það er auðvelt að tala um einstaklingsfrelsi, sérstaklega í kosningabaráttu. Mér finnst merkilegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega leggur alltaf svo ríka áherslu á einstaklingsfrelsið alveg þangað til þeir fá tækifæri til að auka það eða verja. Þá verður hann allt í einu voðalega varkár, vill ekki ganga svo langt og telur tillöguna um frelsisaukninguna kannski fullróttæka. En þá vil ég biðja hv. Sjálfstæðisflokk um að gera kjósendum sínum greiða í næstu kosningabaráttu og greina þá frá því fyrir fram að hann sé svo sem alveg til í einstaklingsfrelsið svo lengi sem það gangi ekki jafn langt og einstaklingsfrelsishugsjón Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar.