149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[23:35]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Frelsi til nafns hefur verið baráttumál SUS í mörg ár og rataði t.d. í síðustu landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins þar sem þetta snýst auðvitað í grunninn um frelsi.

Það er svo merkilegt með frelsið að oft er maður orðinn svo vanur einhverju að maður áttar sig ekki endilega á að í vananum felst ákveðið helsi. Mig langar að nefna að það þarf ekki endilega að vera andstæða að vilja frelsi en þykja samt vænt um eitthvað sem maður er vanur, jafnvel þykja vænt um einhvers konar hefð, jafnvel verða eilítið stoltur í hjartanu þegar maður er í útlöndum og einhverjir spyrja mann hvort maður sé dóttir og maðurinn manns þá son, því að það er eitthvað sem við erum vön og er okkar arfleifð. Ég átta mig á að þetta er einungis brotabrot af nafnahefð okkar en samt partur af sögu okkar og ég tel það ekki vera andstæður að þykja vænt um það en vilja hins vegar meira frelsi.

Ég tel heldur ekki að það þurfi að vera mikill greinarmunur á því sem kalli á mörg gífuryrði þegar talað er um að vanda þurfi til verka. Það er ekki andstætt frelsi að vilja vanda til verka gagnvart menningararfi sem okkur þykir vænt um. Að því sögðu get ég ekki betur séð en að sú breytingartillaga við frumvarpið sem búið er að fara mjög vel yfir hér sé til mikilla bóta. Mig langaði að koma hingað upp og þakka fyrir virðingarverða viðleitni í átt að meira frelsi.