149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál hefur tekið miklum og góðum framförum innan atvinnuveganefndar og vil ég þakka fyrir það. Eftir sem áður er lykillinn fyrir okkur Íslendinga að setja okkur sem strangastar kröfur þegar kemur að framgangi og eflingu fiskeldis til þess að við getum aukið verðmætin afurðanna í mjög grimmri samkeppni sem við eigum við stórþjóðir á sviði fiskeldis.

Ég mun sitja hjá í þessu máli út af nokkrum atriðum. Eitt er leyfisveitingaferlið. Mér finnst það ekki trúverðugt eins og það er sett fram hér. Það er ákveðin tortryggni varðandi viðmiðunardagsetningar og fleira þannig að ég er ósátt við það.

Hvatar eru að mínu mati alls ekki nægir til að fara í lokaðar kvíar, fara í geldlax o.s.frv.

Í þriðja lagi voru felldar í gær tillögur um að friða Jökulfirði og mér finnst miður að nota ekki þetta tækifæri til þess. Síðast en ekki síst er áhættumatið sem getur einmitt orðið lykillinn að trúverðugri uppbyggingu fiskeldis, (Forseti hringir.) lykillinn að því að við getum byggt upp til lengri tíma fiskeldi. Ég óttast að sú leið sem hér er farin varðandi það að nefndin sem er verið að skipa geti farið yfir áhættumatið. Það eru pólitísk fingraför og ég óttast þau.