149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[01:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma því á framfæri hér við upphaf atkvæðagreiðslu að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggst gegn því að þetta frumvarp verði í lög leitt. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur engu að síður fram að fulltrúar í meiri hlutanum telji að það sé tilefni til endurskoðunar mannanafnalöggjafarinnar og eru í nefndarálitinu nefnd nokkur dæmi um þætti sem þyrfti að taka þar til skoðunar.

Ég vil með engum hætti gera lítið úr því starfi sem unnið hefur verið innan allsherjar- og menntamálanefndar við þetta mál eða framlagi hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar sem leiddi þá vinnu. Hins vegar liggur fyrir að meiri hluti nefndarmanna var ekki þeirrar skoðunar að málið væri komið á það stig eða hefði þroskast með þeim hætti að meirihlutafulltrúarnir væru tilbúnir að styðja það og gera (Forseti hringir.) það að lögum að svo stöddu.