149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög góða spurningu, mikilvæga spurningu, og fyrir að gefa mér — ef einhver misskilningur hefur verið í mínum orðum um það — tækifæri til að árétta að einmitt þetta hefðbundna stefnumótunarferli sem birtist í verklagi opinberra fjármála er mjög mikilvægt.

Ég vil árétta það sem ég reyndi að koma að í ræðu minni, mikilvægi þess að verið sé að teikna inn svigrúm í stefnu, fá sveigjanleikann í stefnuna og festuna í áætlunina. Það breytir ekki því við hefðbundið stefnumótunarferli — ég tek undir með hv. þingmanni — þegar við setjum einhverja sýn og ætlum að fá pólitíska sýn í þessu ferli fyrir hverja sitjandi hæstv. ríkisstjórn og síðan markmiðin sem birtast í stefnu og þar vantar upp á að þau séu kostnaðarmetin. Hv. þingmaður hefur haldið því á lofti í því samhengi að geta metið hvort við erum að ná þeim eða ekki. Svo er hægt að mæla markmið með margs konar hætti. Mér myndi ekki endast tíminn til að tíunda það. En hins vegar er síðan mjög mikilvægur hluti af hefðbundnu stefnumótunarferli eftirfylgni og tímasetningar á framkvæmdum. Þetta er í raun og veru eftirfylgniþátturinn. Ég tek undir með hv. þingmanni að það vantar inn í verklagið og þá erum við eiginlega búin að loka árinu í samfellu fyrir hv. fjárlaganefnd, þá verðum við bara hér og getum verið hér allt árið og sumarið líka.

Ég hlakka til að fá ársskýrslu þeirra ráðherra sem koma að stefnumótuninni. Það hefur ekki reynt á það hingað til. Það er mjög mikilvægur þáttur.