149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni og nefndarmanni hv. fjárlaganefndar sömuleiðis gott samstarf. Ég get auðvitað ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni í einu og öllu. Þetta var mjög þröngur tímarammi og blandaðist þinglokum og pressu á að klára mál. Við vorum mikið við atkvæðagreiðslur í gærdag og sá er hér stendur reyndi að koma þeim skilaboðum áleiðis sem við ræddum á fundi nefndarinnar að minni hlutinn hefði ráðrúm og einhvern tíma. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sá tímarammi var meira að segja þröngur fyrir meiri hluta sem þurfti ekki að bregðast við öðru áliti heldur var sjálfur að búa til sitt eigið álit. Það gefur auðvitað alltaf ákveðið forskot.

Það er svo sem ekki mikill svefn á nefndarmönnum hv. fjárlaganefndar og ég held að það eigi bæði við um meiri hluta og minni hluta, en þeirri ósk var þó komið á framfæri að reyna að gefa eitthvert svigrúm inn í morguninn. Hvort það var meira eða minna skal ég ekki segja. Ég get auðvitað ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni í einu og öllu, þetta er þannig mál að við viljum hafa sem mestan tíma og geta gefið okkur sem mest rými til að rýna allar tölur en á einhverjum tímapunkti verðum við að koma þessu frá okkur. Þinglok eru áformuð í dag og við erum í raun og veru að nýta allan þann tíma sem þingið er að störfum. Það er mikilvægt að þetta komist síðan út sem grundvöllur að fjárlagagerðinni.