149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir seinna andsvar og vona að við getum komist yfir þetta uppþot, en þá þætti mér afar kært að fá afsökunarbeiðni til baka vegna þess að mér finnst það býsna miklar ákúrur þó að um misskilning á orðalagi hafi verið að ræða og ég hef beðist afsökunar á því ef ég hef gengið of langt. Það að væna mann um lygar er býsna alvarlegt og ég tók það jafnframt nærri mér og sárnaði það, eins og hv. þingmaður tók sinn skilning á mínum orðum sem ég hef beðist afsökunar á.

Varðandi verklagið hefur sá háttur verið á að við fáum hagaðila fyrir nefndir. Við tökum sannarlega tillit til umsagna þegar við erum að vinna málið í nefndinni og sá háttur hefur ekki verið hafður á að fá hagaðila aftur til að gefa umsögn sérstaklega um þær breytingartillögur sem byggja að einhverju marki á umsögnum hagaðila þar sem tekið er tillit til þeirra.

Mér finnst hins vegar alveg umhugsunarefni þegar eru jafn miklar breytingar á jafn stóru máli og um er að ræða við þær gjörbreyttu efnahagsforsendur og í tímarúmi mjög snögga sveiflu, og þegar búið er að taka tillit til þeirra og gera tillögu að einhverjum breytingum á endanum frá fyrstu tillögu og síðan eins og þær líta út frá meiri hluta, hvort þurfi þá að gefa sér einhvern tíma í það og fá skoðun á því sérstaklega. Það yrði svolítið nýtt verklag frá því sem hefðin er hjá öllum nefndum en mér finnst það alveg (Forseti hringir.) umhugsunarefni.