149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig hlutir eru slitnir úr samhengi. Við getum tekið sem dæmi menningu og listir. Þegar því er haldið fram að það sé verið að draga saman framlög á því sviði verða menn að skoða hvaða einskiptismál sem eru að klárast á áætlunartímabilinu falla út. Menn verða að taka þau með í reikninginn. Þegar menn horfa aftast á áætlunartímabilið og benda á: Sjá, hér á árinu 2024 eru minni fjármunir merktir tilteknu málefnasviði en á við á næsta ári. Þetta er hneyksli! En þá horfa menn fram hjá því að það eru 25 milljarðar óútfærðir á óskipta liðnum. Við erum með 25 milljarða óskipta sem munu á endanum, þegar árið 2024 rennur upp, dreifast á málefnasviðin eftir þeim áherslum sem þá verða uppi. Þetta er bara eitt dæmi um það hvers konar villa er í þessum málflutningi.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um stöðu öryrkja. Það verður að sjálfsögðu að hafa í huga að þegar við erum að horfa mörg ár fram í tímann og merkja fjármuni inn á það málefnasvið erum við að miklu leyti með áætlaðar stærðir, t.d. um nýliðun í örorku. Í meðferð þessa máls í þinginu höfum við verið að ræða að við verðum að bregðast við óeðlilegri fjölgun öryrkja á undanförnum árum. Takist það mun það birtast á málefnasviðinu — en hvergi í tölulegum útreikningi inn í framtíðina er gert ráð fyrir því að það verði gengið á réttindi öryrkja. Það er hv. þingmaður að færa hér inn í þingsalinn. Þetta eru þess vegna í mörgum tilvikum reiknaðar stærðir sem munu ráðast af fjölmörgum óvissuþáttum sem verður að hafa í huga.

Heilt yfir er 36% aukning á áætlunartímabilinu. Ef horft er til upphafs þessa kjörtímabils fram á lok áætlunartímabilsins er 36% aukning til öryrkja (Forseti hringir.) og inn á málefnasviðið húsnæðismál, félagsmál og tryggingamál tæplega 30% aukning. Þetta eru tölurnar sem segja hina réttu sögu.