149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ég vera fastur í einhverjum sýndarveruleika eða Groundhog Day. Menn eru að tala um allt aðra hluti þegar þeir reyna að svara mér. Það sem ég hef sagt hefur ekki verið hrakið. Ég hef hrakið það sem ég hef heyrt stjórnarþingmenn segja: Það er ekki útgjaldaaukning á öllum sviðum. Ég hef heyrt þetta oftar en einu sinni. Á rauðu málefnasviðunum er verið að lækka. Ókei, það getur vel verið að ráðherra geti útskýrt einstök svið. Gott og vel, þá bara bið ég ráðherrann að gera það einhvern tímann. En þegar ég fer yfir þessa töflu sem kemur frá ráðherranum sé ég að heildarútgjöld til mjög margra málefnasviða dragast saman. Ekki á öllum, ég veit, hæstv. fjármálaráðherra, að það hefur verið settur meiri peningur til öryrkja. Ég veit það alveg, ég hef ekki haldið öðru fram. (Fjmrh.: Nú?) Nei, hlustaðu einhvern tímann á ræðuna. Það sem ég er að segja er að þið eruð að taka pólitíska ákvörðun um að draga úr fyrirhuguðum fjármunum til öryrkja milli umræðna. Þið ætluðuð fyrst að hafa 8 milljarða. Svo kom fát á ykkur og nú eru það 4,5 milljarðar, á tíu dögum. Nú talar ráðherrann um að það sé svo erfitt að áætla. Auðvitað var það pólitísk ákvörðun hjá ykkur að skera niður milli umræðna gagnvart öryrkjum niður í 4,5 milljarða en ekki 8, alveg eins og það getur verið pólitísk ákvörðun hjá ykkur að láta þessa tölu vera 0. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að lofa afnámi krónu á móti krónu skerðingar. Það er ekki eins og það vanti verkefni til að koma þessum peningum í.

Varðandi menninguna, framhaldsskólann o.s.frv. eru þessar tölur bara ósköp skýrar. Þið eruð að draga úr útgjaldavexti, getið kallað það hvað sem er, þið eruð bara, nr. 1, að lækka fyrirhugaða fjármuni til lykilþátta, og nr. 2 eruð þið líka að lækka heildartöluna á 17 málefnasviðum af 35. Þetta er ekki gott plagg sem þið getið montað ykkur af. Þetta er slæmt plagg sem þarf ekki að vera svona ef þið mynduð einhvern tímann hlusta á einhvern annan en sjálf ykkur.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að gæta að ávarpsorðum.)