149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara ósammála því að við eigum ekki að ræða þessar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi var enginn trúnaður um þær. Það hefði verið óeðlilegt ef það hefði verið einhver trúnaður um þær. Þetta var tilkynnt á föstudagsmorguninn. Hv. þingmaður er ekki einu sinni í nefndinni. Á föstudaginn fyrir hvítasunnu voru tilkynntar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar um hvernig hún ætlaði að breyta fjármálaáætluninni. Þá kemur hvítasunna sem er löng helgi. Þá var áætlað af nefndinni að afgreiða málið á þriðjudeginum þar á eftir. Hvernig dettur fólki í alvörunni í hug af fullri sanngirni — við skulum setja pólitíkina til hliðar — að við hefðum ekki átt að ræða þessar tillögur? Það átti að keyra þær í gegnum nefndina á næsta fundi þar á eftir. Auðvitað þurftum við að ræða þessar tillögur og eftir því sem ég best veit komu þessar tillögur mörgum stjórnarliðum talsvert á óvart. Þetta eru tillögur frá ríkisstjórn Íslands um hvernig við eigum að breyta fjármálaáætlun. Það er fullkomlega eðlilegt að þær séu ræddar og meira að segja birti hæstv. fjármálaráðherra á sinni Facebook þróunina varðandi öryrkja. (Forseti hringir.) Hann birti hvernig fjármunir til öryrkja, samkvæmt eldri áætlun og nýrri áætlun, litu út, sem var nákvæmlega grunnurinn að þeirri gagnrýni sem ég viðhafði þá helgi, frú forseti.