149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað ég get sagt varðandi hugtök. Ég velti fyrir mér: Ef ríkisstjórnin hefði í breytingartillögum sínum verið að auka frá því sem hafði verið ákveðið í marsútgáfunni, hefði hún þá ekki sagt: Við erum að auka til þessara málaflokka? Ég er alveg viss um að ríkisstjórnin hefði sagt það ef þróunin hefði verið í þá áttina.

Þegar ég flaggaði þessu og fór að ræða þetta — ég skrifaði status um þetta á Facebook — tók ég níu sinnum fram, ég er ekki að grínast, að ég væri að bera saman fjármálaáætlun eins og hún er lögð hér fram í mars við breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og síðan komu breytingartillögur nefndarinnar. Þar er þessi lækkun. Það er verið að minnka og ég get eiginlega ekki sagt þetta skýrar eða oftar.

Ég hvet þingmenn til að prófa að hugsa þetta á hinn veginn. Ef þið hefðuð verið að auka fé til öryrkja, hvað hefðuð þið sagt? Þá væruð þið að segja að í meðförum þingsins væri verið að auka fjármuni til þessara og þessara aðila. Ókei, við skulum ekkert vera að rífast meira um þessa breytingartillögu ef þið kærið ykkur ekki um það en ég er mjög skýr hvað þetta varðar. Ég hef aldrei verið að vekja upp neinn ótta hjá fólki. Ég er krítískur á breytingartillögur ríkisstjórnarinnar, það er minn glæpur. Ég er ekki að skapa neinn ótta og hef aldrei talað fyrir því að hér séu bætur að fara að lækka. Ég hef aldrei sagt það. Hv. þingmaður er ítrekað búinn að segja: Þú mátt ekki segja að bætur séu að lækka. Ég hef aldrei sagt það, ég hef einmitt vandað mig af því að orð skipta máli. Ég hef einmitt vandað mig gríðarlega þegar ég gagnrýni þessar breytingartillögur sem ég er ósammála og mér finnst ekki skynsamlegar og ekki réttlátar. Ég get fullyrt að ef þið væruð í stjórnarandstöðu, hv. þingmenn, mynduð þig segja nákvæmlega það sama og ég.

Ég hef líka gagnrýnt og sagt að það sé ekki rétt að segja að útgjöld séu að aukast á öllum sviðum. Það er bara ekki rétt, sem sést ef við skoðum þessa töflu sem ég er alltaf að flagga á fylgiskjali 7 og öðrum fylgiskjölum. (Forseti hringir.) Þau eru að aukast sums staðar en ekki alls staðar. Orðum fylgir líka ábyrgð þó að viðkomandi þingmenn séu í stjórnarliðinu.