149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi slegið Íslandsmet í yfirlæti og hroka. Hann talar hér um sanngirni. Ég veit ekki hversu oft ég á að fara yfir það að þegar verið er að breyta framlagðri áætlun sem ríkisstjórn hv. þingmanns leggur hér til, það er verið að lækka þau fjárframlög, sé verið að skera niður þær upphæðir sem áttu að renna til viðkomandi málaflokka. Það er sanngjarnt og það er bara staðreynd. Ef ég hefði lofað hv. þingmanni 100.000 kr. launahækkun en látið viðkomandi þingmann fá 50.000 kr. er ég að lækka þá fjármuni um 50.000, skera þá fjármuni niður um (Gripið fram í.) 50.000 kr. Við þurfum ekkert að vera sammála um þetta, við skulum bara ræða um pólitíkina. Það er það sem ég er að reyna að ræða hér. Er hv. þingmaður sammála þeirri pólitík að lækka fyrirhugaða upphæð til öryrkja, miðað við áætlun eins og hún var í mars, um 4,5 milljarða? Gott og vel, tökum orðið niðurskurð út fyrir sviga en ég spyr: Er hv. þingmaður sammála þeirri pólitík að það sé rétt ákvörðun? Um það snýst gagnrýni mín.

Það er skrýtið að taka dæmi af sögunni þar sem er kallað: Úlfur, úlfur og segja að ég hafi gagnrýnt þessa ríkisstjórn áður. Já, ég hef svo sannarlega gagnrýnt þessa ríkisstjórn áður og ég benti sérstaklega á það í ræðu minni að margt sem við erum að ganga í gegnum hér var einmitt fyrirsjáanlegt. Þið hefðuð betur hlustað á þá aðila sem gagnrýndu stefnuna og áætlunina í fyrra. Fjármálastefnan ykkar átti að duga í fimm ár en dugði í eitt ár, m.a. út af því að þið hlustið ekki á aðra. Þið hlustuðuð ekki á varnaðarorðin.

Það þýðir ekki að afskrifa gagnrýnisraddir þannig að það sé einhver ósanngirni í gagnrýninni. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið mjög öflugur stjórnarandstöðuþingmaður þegar hann var í því hlutverki. Okkar hlutverk hér er einmitt að benda á það sem betur má fara. Eitt af því er einmitt breytingartillögurnar sem eru til hins verra miðað við áætlunina ykkar frá því í mars. Þar er pólitíkin, frú forseti, þar er pólitíski ágreiningurinn. Það þjónar bara tilgangi ríkisstjórnarflokkanna að hanga í orðinu niðurskurður sem þeim svíður en forðast inntakið í gagnrýninni.

Er ástæða til að lækka fyrirhugaða fjármuni til öryrkja milli umræðna um 4,5 milljarða, um meira en 1 milljarð til umhverfismála, meira en 1 milljarð til framhaldsskóla? Það er pólitíkin sem þið þurfið að svara fyrir (Forseti hringir.) og það er það sem ég er alltaf að benda á. Efnislega er það það sem skiptir máli.