149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það eru vissulega ákveðin vandamál með tímann sem ríkisstjórnin hefur til að svara bæði fyrirspurnum og skýrslubeiðnum eftir mismiklu umfangi. Það hefur með að gera bæði þann tímaramma sem er settur í þingskapalögum en líka þann aðbúnað sem við bjóðum stjórnvöldum upp á í rauninni til að sinna þeim verkefnum sem þingið felur stjórnvöldum með fyrirspurnum og skýrslubeiðnum. Ég hef ekki séð neina skýrslubeiðni eða fyrirspurn sem ekki á rétt á sér. Þetta eru mjög góðar skýrslubeiðnir og mjög nauðsynlegt að fá þær upplýsingar sem um er beðið.

Það var að berast svar við annarri fyrirspurn sem gefur tvímælalaust tilefni til að skoða það mál betur. Þetta er væntanlega umfangsmikið eins og skýrslubeiðnin mín, en ég er ekki að kvarta undan því að skýrslunni sé skilað seint, alls ekki, því að ég veit að hún er umfangsmikil þó að það séu gjarnan gefnar tíu vikur. Ég bíð þolinmóður eftir skýrslunni og ég er ekkert að stressa mig yfir því. Tímaramminn er samt eins og hann er í lögum (Forseti hringir.) og það er óheppilegt að við gefum stjórnvöldum ekki svigrúm eða bolmagn til að geta svarað tímanlega eftir þeim reglum sem þingið setur.