149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi einmitt vekja athygli á þessu út frá því að þegar skýrslubeiðnir koma fram hafa þingmenn almennt ekki haft neitt tækifæri til að fjalla um málið fyrr en það er borið undir atkvæði í þingsal. Það vantar alla málsmeðferð, alla athugun, allar umræður um það hvort hægt væri að orða hlutina öðruvísi o.s.frv. þannig að ég held, sérstaklega þegar um er að ræða umfangsmikil mál, viðamiklar skýrslubeiðnir, að umræður og athugun ættu að eiga sér stað í aðdraganda þess að málið er borið undir atkvæði en ekki þannig að því sé í raun og veru skellt á borðið hjá þingmönnum með þeim hætti að þeir þurfi annaðhvort að segja já eða nei og hafi ekki tækifæri til að láta nein sjónarmið í ljósi um það hvernig skýrslubeiðnin er úr garði gerð.

Staðan er auðvitað sú að skýrslubeiðnirnar eru ekki sjálfvirkar, þ.e. þingmenn eiga ekki sjálfvirkan rétt til (Forseti hringir.) að fá fram skýrslu. Níu þingmenn geta lagt fram skýrslubeiðni en það þarf samþykki í þinginu. Ég ætla ekki að leggjast gegn málinu en ég vildi nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessu vegna þess að ég held að þetta sé kannski vaxandi vandamál sem (Forseti hringir.) við þurfum að ná einhvern veginn utan um í störfum þingsins.