149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög vel athugandi að við endurskoðum aðeins hvernig skýrslubeiðnir koma til, sér í lagi finnst mér allt í lagi að velta upp hugmyndinni sem hv. 8. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson, kom hérna fram með um að við myndum ræða þær eitthvað í þingsal fyrir fram. Mér finnst það mjög vel athugandi hugmynd.

Ég er ósammála því að þessi skýrslubeiðni feli bara í sér fyrirspurnir um lög og mér finnst eðlilegt að spyrja svona um framkvæmdina.

Ég vil líka nefna að það er aukin eftirspurn eftir upplýsingum í nútímasamfélagi. Píratar eru að mörgu leyti kosnir inn til þess að sækjast eftir meiri upplýsingum og það er mjög mikilvægt að ráðuneytin og stjórnsýslan hafi þá burði sem hún þarf til að geta svarað aukinni eftirspurn eftir upplýsingum. Við getum ekki bara litið til þess að reyna að draga úr eftirspurninni heldur þurfum við líka að bæta framboðið af upplýsingum og auka bolmagn ríkisstjórnarinnar til að bregðast við þessari auknu eftirspurn.

Núna eru betri tækifæri en áður til að nýta upplýsingar sem koma fram og síðast en ekki síst vil ég minna á að þótt við séum lítið þjóðríki og fámennt erum við samt sjálfstætt þjóðríki og það krefur okkur um ákveðna grunninnviði. Og það hvernig upplýsingar (Forseti hringir.) komast í sviðsljósið, hvort sem það er vegna krafna þingmanna eða með öðrum leiðum, er það ákveðið grundvallaratriði sem við verðum að fjármagna almennilega.