149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu.

995. mál
[13:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um að við ættum að fara í einhvers konar málsmeðferð eða athugun. Ég myndi þá vilja sjá hvers konar útfærsla væri á því. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að fara í umræður í þingsal? Á meiri hlutinn að geta hafnað skýrslubeiðnum sem honum finnst ekki þægilegar (BÁ: Getur …) eða ekki nógu málefnalegar að sínu mati? Á það að ganga út á það? Erum við að tala um að nálgast skýrslubeiðnir út frá grundvallarhugmyndafræði vegna þess að hv. þingmanni finnst þær vera orðnar of margar?

Vissulega hefur átt sér stað umræða um skýrslubeiðnir. Mér er t.d. enn þá minnisstæð skýrslubeiðni frá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur sem fékk heldur betur umræðu í þessum þingsal.

Það sem ég gútera bara ekki alveg er að hingað koma menn endurtekið og kvarta yfir fjölda fyrirspurna, fjölda upplýsingabeiðna, en það er ekki boðið upp á neinar lausnir. Það er ekki verið að skoða hvernig ætti að gera þetta betur, heldur fer einhver einstök beiðni í taugarnar á fólki og þá koma hv. þingmenn hingað upp og kvarta. (Forseti hringir.) Komið þá með lausnir í staðinn fyrir að pota alltaf í það að við séum að vinna vinnuna okkar. (Gripið fram í: … forsætisráðherra …)