149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þó að ég sé ekki sammála öllu því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram hér slær hann pínulítið annan tón og manni líður aðeins betur að sitja undir ræðu hans en ræðu fulltrúa 1. minni hluta, sem flutt var hér áðan, þar sem tómt svartnætti var fram undan. Við hv. þingmaður vitum báðir að svo er ekki.

Nefndarálit hv. þingmanns er ágætt svo langt sem það nær og það er ágætt að hv. þingmaður haldi okkur við formið. Hann hefur stundum kallað sjálfan sig formalista. (Gripið fram í: Nei, það eru aðrir.) Hv. þingmaður hefur raunar tekið undir það (BLG: Já.)en látum það liggja milli hluta. Ég ætla ekki að ganga svo langt. Það er hins vegar oft ágætt að vera formalisti og ég held að það sé oft og tíðum ekki neikvætt, síst þegar kemur að þessum málum. Það sem mér finnst hins vegar vanta í nefndarálitið og vantaði í ræðu hv. þingmanns er pólitíkin. Ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður vill fara í þróun ríkisfjármála og hvernig hann sér fyrir sér skipulag skattamála í þróun ríkisútgjalda í einstökum málaflokkum o.s.frv. Þar með átta ég mig ekki á hvert Píratar og félagar hv. þingmanns vilja fara.

Þetta er mitt vandamál og ég óska þess að hv. þingmaður fjalli um það örstutt. Ég geri mér grein fyrir því að tíminn (Forseti hringir.) er naumur en getur hann svarað því örstutt hvernig hann sér fyrir sér þróun tekna ríkisins? Á hvað eigum við að leggja áherslu á komandi árum þegar kemur að útgjöldum? Hvernig vill hann sjá þau þróast?