149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrirspurnina. Mig langar að spyrja einnar spurningar á móti af því að það er það sem nefndarálit mitt snýst um: Er hv. þingmaður sammála því að það vanti forgangsröðun og kostnaðarábatagreiningu í fjármálaáætlun? Ég biðst afsökunar á því að ýmislegt var ekki í nefndarálitinu, það var einfaldlega mjög lítill tími til að skrifa það. Ég er að vísu með 17 blaðsíður en hefði samt viljað skrifa meira. Ég var með langan lista af punktum sem ég varð að sleppa.

Hvað pólitíkina varðar er svarið rosalega stutt og einfalt og ég þarf ekki heilar tvær mínútur til að svara þeirri spurningu. Pólitíkin hjá mér er fagleg vinnubrögð. Þess vegna kalla ég eftir þessum forgangsröðunarlista, af því að hann er grunnurinn að því að hægt sé að skilja hvernig sambland gjalda og tekna virkar, hvaða ábata og ávinning við fáum af skilvirkni í bæði sköttum og gjöldum. Þegar það liggur fyrir er af minni reynslu augljóst hvaða breytingar á að gera.