149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi stefnumálin, áherslurnar og svoleiðis voru Píratar eini flokkurinn sem lagði fram skuggafjárlög fyrir kosningar og þar er hægt að finna áherslur í löngu máli sem er miklu lengra en hægt er að taka tillit til á tveimur árum. Forsendur hafa ekki breyst neitt rosalega mikið hvað áherslurnar varðar, þó hafa þær breyst hvað upphæðirnar varðar.

Breytingartillögurnar eru á tveimur skjölum af því við erum ekki alveg sammála um öll atriðin. Þarna þarf að einbeita sér að breytingunni út frá núverandi hluta. Það er erfitt að setja fram breytingartillögu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun á þessum töflum þar sem — (Gripið fram í: Þær eru svo ósamstæðar.) Nei, nei, þær eru alls ekki ósamstæðar ef þú tekur bara tillit til þeirra talna og lína sem breytast. Þau í Viðreisn voru ekki sammála þar sem átti að hækka skattana þannig að það varð að setja það fram á sérskjali. (Gripið fram í.)Það er ákveðið vandamál í framsetningu þingskjala sem veldur þeim ruglingi sem er í gangi hérna.

Breytingin varðar eingöngu tvær línur, annars vegar afkomuviðmiðið í breytingartillögu frá mér og óvissusvigrúm varðandi skuldirnar. Svo er svigrúmið almennt í hinni breytingartillögunni. Þetta eru þá þrjú aðskilin atriði sem fara ekkert í neinn kross af því að þau eru einmitt aðskilin.