149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland, framsögumanni 4. minni hluta. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni samstarfið í nefndinni. Það er búið að standa frá því að fjármálaáætlun kom inn í mars, svo endurskoðuð stefna nokkru síðar með allri þeirri óvissu sem hefur raungerst í hagkerfinu á sama tíma þannig að verkefni hv. fjárlaganefndar er búið að vera nokkuð vandasamt og viðamikið á þessum tíma með auðvitað fjölmörgum umsögnum, gestakomum o.s.frv.

Ég þakka hv. þingmanni jafnframt fyrir sanngjarna nálgun í sinni ræðu. Hún fór vítt yfir sviðið eins og eðlilegt er í jafn stóru máli og fjármálastefna og fjármálaáætlun er.

Eins og hv. þingmanni er mér annt um að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og þurfa einhverra hluta vegna að þiggja bætur sem enginn er ofsæll af. Ég man ekki til þess að hafa heyrt nokkurn einasta þingmann þann tíma sem ég hef verið, ég hef svo sem ekki verið hér mjög lengi en þó einhvern tíma, tala um annað en að bæta þessi kjör. Þetta er alltaf viðkvæm umræða vegna þess að þegar við erum að vinna í fjárlagavinnu og fjármálaáætlunum tölum við um tölur og prósentur og þá verður þetta viðkvæm umræða. Við verðum hins vegar að gera það, við verðum að horfa á þessi kerfi, greina þau og rýna og horfa til þess hvernig við getum hjálpað einstaklingum með framfærslu þar sem það er hægt vegna þess að þetta er ekki einsleitur (Forseti hringir.) hópur. Hvernig getum við nýtt fjármunina betur? Ég vil bara ítreka að það er aukning inn á sviðið. Ég kem betur að því í síðara andsvari.