149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Willum Þór, fyrir andsvarið, svo ég tali nú ekki um samstarfið. Það er búið að vera sérstaklega ánægjulegt.

Eins og ég hef sagt er talað um viðkvæman hóp og tölur á blaði og þá verða hlutirnir snúnari. Ég hefði nefnilega gjarnan viljað að við öryrkjar værum eitthvað annað en örorkubyrði á excel-skjali vegna þess að með því að vera ekki endilega að spá í hvernig hægt sé að lyfta upp þessu og hinu væri virkilega hægt að koma í veg fyrir mikla fjölgun, draga jafnvel úr fjölda þeirra sem eru á kerfinu með því að veita þeim frelsi til sjálfshjálpar. Í stað þess að vera með mjög mikinn kostnað fyrir allan hópinn við að hækka grunnframfærsluna sem myndi kosta mjög mikið og vera verulega óhagstætt í excel-skjalinu getum við hækkað þann hópinn sem ekki treystir sér til þess að fara út að vinna og neyðist til að vera þarna vegna líkamlegra og andlegra veikinda og hjálpa frekar hinum til sjálfshjálpar með því að skerða þá ekki á bótunum og draga þá út í lífið. Ég held að við gætum uppskorið virkilega fallega útsprungna rós tveimur árum síðar.

Ég segi oft að við mættum stundum hugsa pínulítið lengra en bara rétt fram fyrir tásurnar og jafnvel út alla fjármálaáætlunina og þá trúi ég að við myndum sannarlega uppskera. Þetta er ákveðin breyting á þeirri stefnu og því kerfi sem hefur verið niðurneglt og niðurnjörvað fram til þessa.