149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:30]
Horfa

Jarþrúður Ásmundsdóttir (V):

Herra forseti. Sú staða sem nú er komin upp í efnahagshorfum þjóðarinnar þarf ekki að koma neinum á óvart. Við sem búum hér reiðum okkur á fáar en afar stórar og mikilvægar stoðir í hagkerfinu. Við reiðum okkur á að hingað fljúgi ferðamenn sem lenda mjúklega á Keflavíkurflugvelli og gera vel við sig í mat og drykk, að fiskur syndi inn í lögsögu okkar sem við veiðum og seljum, að hér renni fallvatn sem við getum nýtt til framleiðslu á endurnýjanlegri orku fyrir iðnað í landinu. Allt skapar þetta mikil útflutningsverðmæti sem skipta sköpum fyrir efnahag okkar.

Þessar grunnstoðir eiga það sameiginlegt að vera viðkvæmar fyrir ytri áhrifum og öflum sem gera ekki boð á undan sér. Þess vegna er það svo að þegar harðnar á dalnum og áföll eiga sér stað hriktir svo um munar í stoðunum og nú stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu. Stórt íslenskt flugfélag lagði niður starfsemi fyrir skömmu og við horfumst nú í augu við þá staðreynd að aflabrestur verði í loðnu. Hvort tveggja setur stórt strik í reikning ríkisfjármála. Þegar vel gengur og meðbyr er með grundvallaratvinnugreinum okkar, líkt og verið hefur undanfarin ár, gengur eðli máls samkvæmt allt í haginn. Þá er auðvelt að gleyma stað og stund og horfast ekki í augu við þá staðreynd að til að hér geti ríkt stöðugleiki þarf að huga að því að reisa hér máttarstólpa sem standa af sér válynd veður og áhlaup, stoðir sem svigna ekki og sveiflast eins og lauf í vindi.

Ég er að tala um þekkingu og hugvit, að búa til meiri verðmæti úr okkar takmörkuðu auðlindum og finna nýjar leiðir til að skapa lausnir og þjónustu, að fara nýjar leiðir við nýtingu og verðmætasköpun á hráefnum sem hér finnast.

Það blasir við að hér þurfa allir að leggjast á eitt. Ég er ekki þar með að segja að við eigum að segja skilið við okkar gjöfulu atvinnugreinar, þvert á móti þurfum við augljóslega að huga að nýjum leiðum og hvernig hægt er að auka verðmætasköpun og útflutningsverðmæti á nýjan hátt, leiðum sem ekki eru eins fallvaltar þegar á móti blæs.

Við sem þjóð höfum því miður áður staðið frammi fyrir svipaðri stöðu. Líklega er flestum hér inni í fersku minni þegar fiskveiðiþjóðin litla með útrás banka í fararbroddi var orðin að fjármálamiðstöð á alþjóðlegan mælikvarða á fyrstu árum þessarar aldar. Mögulega muna einhverjir hér inni eftir síldinni sem kom — og fór — á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá skulum við heldur ekki gleyma makrílnum sem synti alveg óvænt inn í lögsögu okkar á ögurstundu eftir efnahagshrunið. Á löngum hagvaxtarskeiðum þegar loðnan, makríllinn og ferðamenn leika hér við hvern sinn fingur er auðvelt að halla sér aftur og gleyma því hve fallvalt það ástand er. Í sögulegu samhengi höfum við ekki verið neitt sérstaklega góð í því að geyma eggin okkar í fleiri en einni körfu.

Til að hér geti blómstrað stöðugt efnahagslíf þarf að vera frjór jarðvegur fyrir framtakssamt fólk. Dæmin sýna að hér höfum við dýrmætan mannauð sem lætur verkin tala þrátt fyrir þær áskoranir sem ríkja í íslensku atvinnulífi. Á síðustu misserum höfum við orðið vitni að stóraukinni fjárfestingu í sprotafyrirtækjum þar sem hún nær þrefaldaðist á milli áranna 2017 og 2018. Þá urðum við líka vitni að stórtíðindum í íslenskri viðskiptasögu þegar við sáum íslenskt sprotafyrirtæki selt erlendum aðila fyrir metfjárhæð sl. haust. Það fyrirtæki steig á stokk fyrir rúmum áratug og kynnti viðskiptahugmynd sína, hugmynd sem framtakssamir aðilar komu í verk og byggðu upp alþjóðlegt fyrirtæki sem varð með tímanum leiðandi í sinni grein. Þetta hefði ekki orðið að veruleika ef ekki hefði verið hér fólk sem var tilbúið að láta draum sinn rætast, nýtti þekkingu, menntun og þann mannauð sem hér býr í uppbyggingu og verðmætasköpun.

Og hvað svo? spyr fólk. Hvenær verður næsta stóra sala íslensks sprotafyrirtækis, sala sem skilar háum fjárhæðum til fjárfesta og veitir stofnendum þess innspýtingu til að stofna nýtt fyrirtæki og byggja áfram upp öflugt þekkingarsamfélag hér á landi? Til að halda góðum dampi í þekkingariðnaði á þennan hátt þyrftum við að horfa fram á sambærilega sölu annað hvert ár en sú er ekki raunin. Við erum heppin ef við sjáum fram á slíkt gerast á fimm ára fresti. Til að það verði að veruleika þarf að búa svo vel um hnútana að hér sé stöðugt flæði nýrra fyrirtækja sem stíga á stokk með hugmynd sína og kjarkinn að vopni. Við höfum séð uppbyggingu á nýjum fyrirtækjum, m.a. hugbúnaðarfyrirtækjum, sem hafa skapað tekjur á nýjum sviðum og sótt inn á nýja markaði. Það gefur augaleið að sækja þarf út fyrir landsteinana til að skala upp rekstur og þar með hefja marktækt framlag í þágu aukins hagvaxtar. En til að það geti orðið að veruleika þarf jarðvegurinn að vera næringarríkur svo að sprotar og útsæðið fái að vaxa.

Ég vil fá að nefna hér nokkur atriði. Hér þarf að ríkja umhverfi fyrir atvinnulífið sem gerir það að verkum að framtakssamt fólk geti án viðskiptahindrana komið nýjum fyrirtækjum á fót án óþarfafyrirhafnar og afskipta hins opinbera. Góð menntun og þar með aðgangur að góðum mannauði skiptir miklu máli, gott aðgengi að fjárfestum, bæði innlendum og erlendum, sem geta stundað viðskipti hér án viðskiptahindrana og í þeirri vissu að hér ríki stöðugleiki og áreiðanleiki í starfsumhverfi fyrirtækja. Og meira þarf til að þekkingariðnaður sem og annar geti blómstrað hér, svo sem aðgangur að sérfræðingum sem geta komið hingað til lands og starfað án hindrana. Það gefur augaleið að í litlu samfélagi eins og okkar líður ekki langt á líftíma fyrirtækis áður en það þarf að sækja út fyrir landsteinana þegar kemur að því að ráða fólk með sérhæfða alþjóðlega reynslu.

Þá vil ég líka nefna fyrirtæki sem ekki eru farin að sýna tekjur. Þau þurfa að geta starfað á undanþágu á rekstrarformi sem gerir ráð fyrir engum tekjum á fyrsta ári. Það er nauðsynlegt að gefa sprotafyrirtækjum skjól á fyrstu misserum starfstíma frá íþyngjandi kvöðum á meðan verið er að koma fyrirtækinu á legg. Launatengd gjöld, svo sem tryggingagjald og aðrar kvaðir, gera það að verkum að launakostnaðurinn er hár og aðeins brot af heildarlaunagreiðslum atvinnurekanda fer í vasa launþega. Restin fer í opinber gjöld.

Að lokum vil ég nefna móður allra áskorana fyrir íslenskt atvinnulíf, íslensku krónuna. Lítill gjaldmiðill sem sveiflast eins og lauf í vindi gefur ekki góð fyrirheit um stöðugleika í augum erlendra fjárfesta. Gjaldmiðill sem er viðkvæmur fyrir öllum utanaðkomandi aðstæðum gerir það að verkum að verðgildi hans helst aldrei stöðugt. Meiri óstöðugleiki leiðir af sér meiri áhættu og meiri áhætta leiðir svo af sér hærri vexti. Þetta vitum við öll. Háir vextir kosta að lokum íslenskt atvinnulíf háar upphæðir á hverju ári. Hvaða afleiðingar hefur krónan á íslensk fyrirtæki? Útflutningsfyrirtæki, bæði stór og ekki síst þau minni sem eru að vaxa, standa frammi fyrir þeirri staðreynd að nær ómögulegt er að gera langtímaáætlanir í rekstri. Þegar tekjur eru í erlendri mynt en kostnaður sem liggur að stórum hluta í mannauði er í íslenskum krónum vinnur hvort gegn öðru. Af þessari vandasömu stöðu hafa fyrirtæki, t.d. í ferðaþjónustu og hugbúnaðargerð, ekki farið varhluta.

Herra forseti. Svo ég vitni í orð hv. þm. Óla Björns Kárasonar frá því fyrr í dag er það pólitísk ákvörðun hvernig við forgangsröðum í ríkisfjármálum. Við erum ekki að fara fram á ríkisfjárframlög til styrktar einstökum greinum eða fyrirtækjum. Þvert á móti viljum við í Viðreisn að fjármunum sé forgangsraðað í þá veru að umhverfi nýsköpunar sé eflt. Fyrst og fremst viljum við sjá að allar íþyngjandi viðskiptaþvinganir séu fjarlægðar, þvinganir sem hamla nýsköpun og nýjum tækifærum hér á landi til að fjölga undirstöðum efnahagslífs, undirstöðum sem standa af sér aflabrest.

Þannig verðum við komin í þá vegferð að eftir nokkur ár, þegar við sjáum aftur fram á aflabrest eða tískusveiflur í ákvörðunarstaðarvali ferðamanna, verðum við með margar stórar atvinnugreinar sem standa af sér fjölbreyttar áskoranir og áföll.

Herra forseti. Hv. þingmenn. Drögum nú lærdóm af sögunni og drögum lærdóm af því sem er að gerast í kringum okkur eina ferðina enn. Hugsum lengra og hefjum markvissa uppbyggingu á framtíðaratvinnugreinum og fjölgum tækifærum sem auka hér lífsgæði og hagsæld fyrir alla sem hér búa.

En þá erum við komin að því hvers vegna við stöndum frammi fyrir þeirri nöturlegu stöðu sem upp er komin. Viðreisn hefur talað fyrir mikilvægi þess að gæta hófsemi í hagvaxtarspá. Alvarleg teikn eru á lofti um að niðursveiflan verði bæði dýpri en ríkisstjórnin hefur boðað og mögulega langvinnari. Það er algjörlega óábyrgt að sýna ekki meiri varfærni en raun ber vitni við þessar aðstæður. Enn fremur er mikilvægt að ráðist verði í allsherjarúttekt á þróun ríkisútgjalda undanfarin tíu ár og árangur útgjaldaaukningarinnar rannsakaður. Samhliða verði ráðist í hagræðingarátak í rekstri með áherslu á aukna skilvirkni í ríkisrekstri, sameiningu stofnana og rafræna stjórnsýslu.

Leita verður allra leiða til aukinnar skilvirkni í kólnandi hagkerfi, hagræðingar og bættrar nýtingar svo ekki þurfi að koma til skertrar þjónustu. Þetta er tillaga Viðreisnar sem þingið mun greiða atkvæði um á eftir.

Í þeim samdrætti sem nú blasir við er nauðsynlegt að auka fjárfestingar í innviðum til að vega upp á móti þeim samdrætti sem nú blasir við og er hann hafinn. Flýta þarf áformum um slíkar fjárfestingar og auka þær um 20 milljarða á ári næstu þrjú ár. Á móti leggjum við til sölu á þriðjungshlut Íslandsbanka ásamt öðru. Óvissusvigrúm fjármálastefnu er að okkar mati ekki nógu mikið. Þrátt fyrir að verið sé að auka það teljum við að auka verði það úr 0,4% í 1,5% af landsframleiðslu næstu þrjú ár. Slíkt svigrúm er nauðsynlegt til að skapa rými í ríkisútgjöldum í þeirri niðursveiflu sem fram undan er. Sá vandi sem ríkisstjórninni er á höndum er fyrirsjáanlegur og ítrekað hefur verið varað við því að ríkisstjórnin hafi byggt áætlanir sínar á allt of bjartsýnum hagspám. Tilefni er til að taka undir gagnrýni fjármálaráðs sem bendir á að vandi ríkisstjórnarinnar stafi fremur af lélegri fjármálastjórn en endurskoðaða hagspá Hagstofu Íslands. Það eitt og sér réttlætti ekki endurskoðun á fjármálastefnu en í ljósi þess að horfur séu á meiri niðursveiflu en Hagstofan gerir ráð fyrir væri óábyrgt að endurskoða stefnuna ekki. Í þeirri endurskoðun er brýnt að ekki verði endurtekin mistök fyrri ára og fjárfestingar skornar við trog. Á tímum sem þessum er bæði mikilvægt og um leið hagstætt fyrir ríkið að auka við fjárfestingar sínar. Viðreisn gagnrýnir þau áform ríkisstjórnarinnar að skera áformaðar fjárfestingar niður um 10 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar. Sú ráðstöfun, auk 8 milljarða skerðingar á kjörum örorkulífeyrisþega og 10 milljarða lækkunar útgjalda til heilbrigðismála, er ein stærsta einstaka hagræðingaraðgerð stjórnvalda á útgjaldahlið í endurskoðaðri fjármálaáætlun. Því leggur Viðreisn til að þungi fjárfestinganna fari í að hraða vegaframkvæmdum sem tengjast borgarlínu og við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar.

Til að kóróna villu ríkisstjórnarinnar leggur hún nú til í endurskoðaðri fjármálaáætlun að draga úr áformuðum framlögum til nýsköpunar og rannsókna sem er skref í kolranga átt frá því að treysta stoðir íslensks efnahags.

Viðreisn hefur talað fyrir ábyrgri hagstjórn og mikilvægi þess að keyra ekki fram úr í ríkisrekstri. Okkar tillögur taka allar mið af því.

Herra forseti. Það að gera meira úr minni efnivið eru töfrar nýsköpunar sem breyta ríkjandi ástandi og þannig eiga sér stað byltingar í nýsköpun, þegar minni aðföngum er breytt í meiri afurðir og meiri verðmæti. En þrátt fyrir að blikur séu á lofti er eitt sem mun ekki breytast svo glatt, sama hvort Ísland heldur áfram að vera vinsæll áfangastaður ferðamanna og fiskurinn að synda á miðin eða ekki mun hér halda áfram að búa harðduglegt og úrræðagott fólk og það er auðlind sem við verðum að nýta, fólk sem er tilbúið að taka slaginn og mæta áskorunum sem nú blasa við. Og þær eru stórar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)