149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

þingfrestun.

[20:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég flytja forseta og varaforsetum þakkir fyrir samstarfið í vetur. Einnig þakka ég forseta hlý orð í okkar garð og síðast en ekki síst þakka ég samstarf forseta við okkur þingflokksformenn.

Vissulega hefur gengið á ýmsu í þinghaldinu í vetur en þrátt fyrir dökkt útlit á stundum hefur náðst að lenda málum á endanum og þar hefur reynsla og skýr forysta forseta skipt miklu.

Það gleður mig að fá hér fyrir hönd okkar alþingismanna tækifæri til að færa starfsfólki Alþingis kærar þakkir fyrir góð störf og mikilvæga aðstoð í hinum ýmsu og gjarnan ólíklegustu málum. Sú fordæmalausa staða sem hefur verið uppi í þinghaldinu síðustu vikur hefur valdið álagi sem fyrst og fremst hefur bitnað á starfsfólki Alþingis. Því álagi hefur það mætt með aðdáunarverðum hætti.

Þá vil ég færa skrifstofustjóra Alþingis sérstakar þakkir og hlýjar kveðjur, nú þegar líður að starfslokum hans. Liðinn vetur hefur verið afar viðburðaríkur, ekki endilega hvað málefnin varðar. Þar hefur verið tekist á eins og gengur og gerist um áherslur og leiðir. Veturinn hefur fyrst og fremst verið viðburðaríkur vegna framgöngu okkar þingmanna jafnt innan þings sem utan. Sú framganga hefur ekki alltaf verið til eftirbreytni, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ásýnd og virðing Alþingis er á ábyrgð okkar allra. Það er óskandi að við sameinumst um að sýna í verki að við stöndum undir þeirri ábyrgð.

Ég ítreka þakkir okkar til forseta og starfsfólks Alþingis og bið þingmenn um að taka undir þau orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]