149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:29]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt og ritað um innleiðingu þriðja orkupakkans og engu við það að bæta. Eftir að hafa farið yfir málið í heild sinni virðast engin stórtíðindi birtast með innleiðingu þriðja orkupakkans. Þau birtust með innleiðingu fyrsta og annars pakkans. Með þriðju raforkutilskipuninni var einkum leitast við að taka á eftirfarandi atriðum: Hert á kröfum um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta, raforkueftirlitið eflt, samstarf raforkueftirlita aukið og neytendavernd aukin. Því má segja að breytingarnar birtist í þessu frumvarpi, þ.e. aukin neytendavernd.

Þegar annar orkupakkinn var innleiddur var gerð sú krafa að raforkueftirlitið yrði óháð hagsmunum raforkufyrirtækja og með þriðju tilskipuninni er gert ráð fyrir að einungis eitt stjórnvald fari með raforkueftirlitið. Það skal einnig vera lagalega aðgreint frá óháðum opinberum aðilum eða einkaaðilum og því er varðar starfsemi. Aðildarríkin skulu ábyrgjast sjálfstæði eftirlitsvaldsins og þannig tryggja óhlutdrægni.

Ég styð þetta frumvarp til hagsbóta (Forseti hringir.) fyrir neytendur á raforkumarkaði í landinu.