149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða þetta átta blaðsíðna plagg sem er sú innleiðing þriðja orkupakkans sem endar í íslenskri löggjöf. Þetta eru átta blaðsíður, þetta er ekki mikið. Lagatextinn sjálfur er á tæplega tveimur blaðsíðum og ég hvet alla til að lesa þetta frumvarp vegna þess að þá kemur svo augljóslega í ljós hve mikið smámál þetta er. Ég velti fyrir mér hvar allt landráðið sé, ætli það sé í 1. gr. eða 2. gr. þar sem er talað um tekjumörk vegna gjaldtöku? Eða ætli það sé í 4. gr. þar sem Orkustofnun fær stjórnvaldssektarheimildir og áminningarheimildir? Eða ætli það sé hækkunin um 0,18 aura eða 0,45 aura á kílóvattstund í 6. gr.? Hvar er þetta fullveldisafsal? Hvar er ACER og ESA hérna inni? Hvar eru þessar hörmungar sem koma í íslenska löggjöf í kjölfar þessa máls? Þær eru ekki þarna, virðulegi forseti. Mér þætti vænt um að fólk myndi bara lesa þetta blað. Það má finna á heimasíðu Alþingis. Þetta er mál nr. 782, maður fer inn í þingmál, svo frumvörp og leitar þar að 782. Lesið þetta og þið sjáið hvað þetta er hjákátlegur málflutningur frá (Forseti hringir.) hv. þingmönnum Miðflokksins og örfáum til viðbótar.