149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum síðasta hv. ræðumanns er rétt að geta þess að það er ekki nýmæli að svo sé mælt fyrir um í lögum að einstakar stofnanir séu sjálfstæðar í störfum sínum og hafi sjálfstætt úrskurðarvald. Það er ekki nýmæli. Það á við um mjög margar eftirlitsstofnanir í þessu samfélagi. Það breytir ekki því að þær starfa eftir þeim lagaramma og reglugerðaramma sem ákveðinn er, en þær eru hins vegar sjálfstæðari í einstökum ákvörðunum. Við getum nefnt samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit, fjölmargar eftirlitsstofnanir sem hafa svipað hlutverk og Orkustofnun mun hafa í þessu tilviki, þannig að það er ekkert nýmæli og alveg ástæðulaust að búa til einhverjar draugasögur í kringum það.