150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Kjörtímabilið er hálfnað, virðulegi forseti, og þótt við í þingliði Viðreisnar séum þingmenn þjóðarinnar allrar endurspeglum við í störfum okkar á Alþingi lífsviðhorf fjölda fólks sem vill skýrar og stöðugar framfarir, öflugt velferðarkerfi, sterkt menntakerfi, fjölbreytt atvinnulíf, allt á grundvelli frelsis, jafnréttis, opins samfélags og alþjóðasamstarfs. Til þess vorum við líka kosin.

Á þessum tímamótum deilum við fögnuði með fólkinu sem stendur með okkur og við erum þakklát. Í könnunum má lesa að fylgi Viðreisnar hefur nærri tvöfaldast á kjörtímabilinu og Viðreisn hefur bætt við sig fleiri atkvæðum en nokkur annar flokkur. Þetta eru skýr skilaboð til okkar. Það eru óskir um að hverfa frá þeim kyrrstöðusáttmála sem forsætisráðherra varði í upphafi umræðunnar. Það eru óskir um að frjálslynd öfl á miðjunni fái meiri áhrif til að byggja framfarasókn á grundvelli víðsýni og frjálslyndis. Og þetta eru óskir sem við hlustum á.

Við þurfum ekki annað en að horfa á örfáa þætti til að átta okkur á því hvers vegna frjálslyndið er í sókn og Viðreisn vex.

Lítum á nokkur dæmi. Vinstri græn komu inn í þessa ríkisstjórn með stærstu loforð um umbætur í heilbrigðismálum sem nokkru sinni hafa verið gefin. Hvaða fréttir blasa svo við fólkinu í landinu okkar þegar kjörtímabilið er nú hálfnað? Svarið er: Fleiri fréttir um lokanir en nokkru sinni fyrr, fleiri fréttir um frestun aðgerða en áður, frétt um að níu ára drengur hafi beðið í nokkra daga eftir aðgerð vegna handleggsbrots. Og fleiri fréttir um biðlista á biðlista ofan. En það má segja hæstv. heilbrigðisráðherra til lofs að hún hefur skrifað öll stóru fyrirheitin mjög nákvæmlega inn í heilbrigðisáætlun til 2030 á mjög vönduðu stofnanamáli. Á tæpitungulausri íslensku þýðir það að hún hefur pakkað fyrirheitunum snyrtilega inn, sett í kassa og bundið fyrir með silkislaufu. Á skrautkortinu standa svo þau fyrirmæli að pakkinn skuli ekki opnaður fyrr en á þriðja kjörtímabili héðan í frá, ekki fyrsta, ekki öðru heldur þriðja kjörtímabili.

Félagasamtök og sjálfseignarfélög hafa lengi gegnt þýðingarmiklu hlutverki í íslensku samfélagi og íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þessi félög eru þyrnir í augum ráðherra. Í lokuðum bakherbergjum lætur hún embættismenn sína þröngva þeim til að kyngja óverðtryggðum skammtímasamningum enda er verðtrygging bara ætluð fyrir búvörusamninga. Hagsmunir sjúklinga eru látnir víkja fyrir pólitískum draumi ráðherra um aukna ríkisvæðingu, líka þar sem hennar er alls engin þörf. Þessi áform bíða ekki í kassanum sem opna á 2030. Þess vegna er kverkatakið hert gagnvart frjálsum aðilum sem sinna endurhæfingu, öldrunarþjónustu eða skimunum eftir krabbameinum svo eitthvað sé nefnt. Og biðlistarnir frægu þjóna sínu hlutverki fyrir hina markvissu ríkisvæðingu. Og Sjálfstæðisflokkurinn lætur sér vel líka.

Fáar þjóðir eru jafn háðar umheiminum og tengslum við hann og Ísland. Við þurfum að flytja út mest af því sem við framleiðum og kaupa frá útlöndum mest af því sem við neytum. Auk þess þurfum við að semja við aðrar þjóðir um varnir landsins.

Hvernig hefur ríkisstjórnin staðið sig í að sækja og verja utanríkispólitíska hagsmuni Íslands? Því er fljótsvarað. Bakland stærsta stjórnarflokksins er brotið þegar kemur að því að verja aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins sem er stærsta og mikilvægasta bandalag fullvalda þjóða um sameiginlegan heimamarkað og tekur fyrst og fremst að sjálfsögðu utan um neytendur nær og fjær. Þegar kemur að vörnum landsins er bakland forystuflokks ríkisstjórnarinnar í fjötrum löngu liðinna kaldastríðshugmynda.

En hvaða áhrif hefur þetta? Svarið er augljóst. Ríkisstjórn með þessa klafa á herðum er of veik til að gæta hagsmuna Íslands og leggja inn á nýjar brautir til að svara kalli nýrra tíma. Hún er í besta falli umgjörð um óbreytt ástand. Hún sækir ekki fram, hún rær í hringi. Veikleikinn kom skýrt fram í orkupakkaumræðunni en vegna innanflokksátaka í stærsta stjórnarflokknum tók það ríkisstjórnina tvö ár að innleiða orkupakkann þrátt fyrir afgerandi meiri hluta á þingi. Fyrir atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna er þetta alvarlegt umhugsunarefni, ekki síst fyrir komandi kynslóðir.

Ísland þarf nú, líkt og aðrar þjóðir, að velja hvort þróa eigi tengslin í fjölþjóðasamstarfi eins og ESB eða hverfa aftur til tvíhliða samskipta að hætti Breta og Bandaríkjamanna. Ríkisstjórnarflokkarnir sitja hins vegar á miðju vegasaltsins og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Og þegar einn stuttur fundur með mikilvægri vinaþjóð er haldinn birtist stefnuleysið, ringulreiðin og skilaboð okkar Íslendinga verða óljós. Hvernig ríkisstjórninni tókst síðan að koma sér í vandræði hjá tveimur stórveldum á einum og sama stutta fundinum er auðvitað með ólíkindum.

Forsætisráðherra kallar nú eftir samstöðu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég er algjörlega sammála því enda auðlindaákvæði í stjórnarskrá lykillinn að því að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar. En hvað er forsætisráðherra að fara með því? Svarið er þetta: Af því að ríkisstjórnin er mynduð um kyrrstöðu vill hún stjórnarskrárákvæði sem segir ekkert umfram það sem almenn lög hafa lengi mælt fyrir um. Til að gera sameign þjóðarinnar raunverulega virka þarf a.m.k. að gera tvenns konar breytingar, annars vegar að binda nýtingu einkaaðila við tiltekinn tíma í senn og hins vegar að þeir greiði réttlátt auðlindagjald fyrir þau verðmæti.

Ákall forsætisráðherra um stjórnarskrárákvæði sem tekur ekki á þessu viðfangsefni er einfaldlega tilraun til að villa um fyrir fólki. Arfleifð Katrínar Jakobsdóttur gæti því orðið sú að festa í sessi óbreytt ástand og reyna svo að telja þjóðinni trú um, í gegnum glansmynd og PR-mennsku, að einhverju hafi verið áorkað. Enn og aftur verða, kæru landsmenn, almannahagsmunir látnir víkja fyrir sérhagsmunum.

Slík er reyndar kyrrstaðan sem Vinstri grænum er umhugað um að verja að þau sýna ekki einu sinni frumkvæði til að breyta löngu úreltri hvalveiðistefnu Íslendinga.

Kæru landsmenn. Það felst ábyrgð í því að vera manneskja. Það er ábyrgð að vera manneskja í stjórnmálum. Þess vegna er það ábyrgðarleysi að sitja í ríkisstjórn sem velur kyrrstöðu því að kyrrstaðan er ekki mótvægi við öfgar og afturhald, hvað þá að hún sé hreyfiafl fyrir mennskuna til framtíðar. Við í Viðreisn munum óhrædd og af festu berjast gegn uppgangi öfga og einangrunarafla, hvar sem þau kunna að finnast, gegn þeim sem setja ekki mannréttindi í fyrsta sæti, afneita loftslagsbreytingum, grafa undan dýrmætu alþjóðasamstarfi eða beita hvers kyns lýðskrumi.

Við höfum líka sýnt að við styðjum brýn mál, hvort sem þau koma frá ríkisstjórninni eða öðrum, sem byggja á frelsi, jafnrétti og réttlæti fyrir almenning. Og við erum málefnaleg. Þannig vinnur Viðreisn að þjóðarhag og þannig munum við halda áfram að vinna.