150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Kjörtímabilið er nú u.þ.b. hálfnað og það er full ástæða til að horfa fram með bjartsýni til seinni hluta þess. Með myndun þessarar ríkisstjórnar var stefnt að ákveðnum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum og það hefur borið árangur. Pólitískur stöðugleiki var forsenda lífskjarasamninga sem gerðir voru fyrr á þessu ári og þeir gefa okkur ástæðu til bjartsýni á komandi árum, ekki síst í viðleitni okkar til að bæta lífskjör þeirra sem lakast standa. Við erum hér til að gera líf landsmanna betra og einfaldara.

Á vettvangi þingsins og annars staðar tökumst við á um ólíkar hugmyndir. Það er ekki aðeins hollt að glíma við andstæðar skoðanir heldur er samkeppni hugmynda forsenda þess að lýðræðissamfélag, samfélag frjálsra einstaklinga, lifi og dafni.

Auðvitað er líka tekist á um hin ýmsu málefni innan stjórnarmeirihlutans. Annað væri óeðlilegt í ljósi þess hve ólík hugmyndafræði flokkanna þriggja er. Þótt stundum sé erfitt að ná ekki öllu sínu fram hafa þingmenn ríkisstjórnarinnar verið samstiga og búa yfir pólitískum þroska til að takast á við ólík verkefni af ábyrgð, festu og getu til að miðla málum án þess að fórna grunnhugsjónum. Ég veit að það hefur reynst stjórnarandstöðunni erfitt að skilja hvernig andstæðir pólar ná að vinna saman og ná árangri. Skynsamlegar málamiðlanir leiða nefnilega ekki til kyrrstöðu heldur inn á brautir nýrra tækifæra framtíðarinnar. Við munum halda áfram að takast á um mál frá hægri og vinstri en þegar verkefnin eru skýr og markmiðin sameiginleg næst árangur. Þetta á t.d. við í umhverfismálum. Rökræðan leiðir í ljós að þar takast ekki á eiturspúandi stóriðjusinnar og lattelepjandi lopatreflar. Öll erum við náttúruverndarsinnar og flest gerum við okkur grein fyrir því að náttúruvernd er skynsamleg efnahagsstefna um leið og við nýtum auðlindir með sjálfbærum hætti.

Hið sama á við um útlendingamál og innflytjendur. Valkostirnir geta aldrei orðið þeir að við annaðhvort lokum landamærum eða þurrkum þau hreinlega út. Flestir átta sig á að hvorugt kemur til greina. Við eigum að taka vel á móti þeim sem hingað vilja koma, enda sé fylgt ákveðinni formfestu með skýrum, gagnsæjum og skilvirkum reglum. Ég tek þetta ekki bara sem dæmi af því að þessi mál eru nú á mínu borði heldur vegna þess að það mun hvorki nást neinn árangur né skynsamleg niðurstaða ef öfgar ráða í umræðunni.

Kæru landsmenn. Ég vona að við getum farið inn í nýjan þingvetur með þessu hugarfari. Við erum meðvituð um að við verðum ekki sammála um alla hluti, nema síður sé, og okkur ber skylda til að halda áfram að takast á um ólíkar hugmyndir, leiðir og að einhverju leyti líka um markmið, en við skulum gera greinarmun á pólitískum stefnumálum og hræðsluáróðri og muna hvers vegna við erum hér. — Góðar stundir.