150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þetta er í annað sinn sem mér hlýst sá heiður að fá að koma hingað upp af því að við erum svo heppin að vera bara tvö í þingflokknum, ég og Guðmundur Ingi Kristinsson. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég var ekki alveg búin að segja ykkur allt sem mig langaði áðan, þó að ég hafi reynt að tala mjög hratt.

Staðreyndin er sú að Flokkur fólksins hefur núna sett fram fimm forgangsmál. Mig langaði til að beina máli mínu sérstaklega til þess þjóðfélagshóps sem við Guðmundur Ingi tilheyrum bæði tvö, öryrkja. Við höfum barist fyrir því lengi og alveg frá því við komum hingað inn á hið háa Alþingi að gefa öryrkjum kost á því að koma sér sjálfir út úr fátæktargildrunni, að reyna að koma í veg fyrir fjölgun öryrkja eins og alltaf verið að tala um. Sú fjölgun einkennist öðru fremur af ungum einstaklingum sem eru hugsanlega líkamlega hraustir en eru kannski andlega veikir, búnir að vera í böli vímu og eru að reyna að ná sér upp á ný. Þeir fá í rauninni ekkert utanumhald. Þegar er verið að tala um að lækka skerðingu krónu á móti krónu í 65 aura á móti krónu er það bara engan veginn nóg.

Það sem við höfum verið að boða og kalla eftir kostar heldur ekki mikla peninga og þess vegna skil ég ekki hvers vegna má ekki gera það sem aðrar þjóðir hafa gert og sýnt góðan árangur með, samanber Svía. Það er að gefa öryrkjum kost á því að meta sjálfir sína starfsgetu, ekki einhverjum bírókrötum á skrifstofu úti í bæ heldur þeim sjálfum, gefa þeim kost á að fara út að vinna án þess að skerða þá. Auðvitað borga þeir sína skatta á meðan, en gefa þeim aðlögunartíma, tveggja ára aðlögunartíma. Eru þeir bærir til að vinna eða geta þeir það ekki? Hingað til höfum við refsað þeim sem hafa reynt fyrir sér úti á vinnumarkaðnum. Ef þeir fara út að vinna og það gengur ekki upp og þeir hafa komið aftur til baka, brotnir, eftir kannski einn mánuð eða tvo, eru þeir dottnir út úr kerfinu. En leiðin sem Svíar fóru á sínum tíma sýndi og sannaði að yfir 32% allra þeirra sem leituðu fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér ekki aftur inn í kerfið. Er það ekki það sem við erum að reyna að gera? Erum við ekki að reyna að draga mannauðinn okkar fram? Er ekki mannauður í okkur öryrkjum líka? Ég segi jú. Flokkur fólksins segir jú.

Að lokum langar mig aðeins að segja þetta: Við erum búin að berjast með oddi og egg fyrir því að reyna að ná niður biðlistum inn á Vog. Þeir hafa aldrei verið lengri. Fjárveitingarvaldið veitti 150 millj. kr. í desember á síðasta löggjafarþingi til starfsemi SÁÁ. Ekki ein einasta króna hefur skilað sér inn á Vog. 35,5 milljónir hafa verið greiddar út frá Sjúkratryggingum Íslands, ekki króna inn á Sjúkrahúsið Vog. Listinn er það langur að í ágúst sl. þurfti í rauninni að vísa fólki frá sem var búið að pakka niður í tösku af því að það voru ekki til rúm. Ég segi bara hér, kæru landsmenn og þið, frábæru þingmenn: Við getum gert betur. Ég hlakka til að sjá það í vetur. — Góðar stundir.