150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að honum sé umhugað um kjör þeirra sem best standa í samfélaginu, en hvað um þá sem eru fátækastir? Lágmarksframfærslutrygging þeirra sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri er 247.183 kr. á mánuði. Hámarkslífeyrir með öllum tengdum greiðslum er 310.800 kr. á mánuði. Ljóst er að margir ná ekki þeirri upphæð.

Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökustu kjörin eru konur sem hafa unnið hlutastarf meðfram heimilisstörfum á árum áður eða verið heimavinnandi af einhverjum ástæðum. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Sá hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða jafnvel engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og hafa mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu.

Stór hópur aldraðra og öryrkja býr við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt nýjustu rannsókn Hagstofu Íslands. Með fjárlagafrumvarpinu er lagt til að lífeyrisgreiðslur hækki aðeins um 3,5% um áramótin á meðan lægstu laun hækka meira, þ.e. 5,7%, frá 1. apríl á næsta ári. Þau hækkuðu reyndar 1. apríl í ár og það er hækkun sem lífeyrisþegar fengu ekki.

Ef svo heldur áfram sem horfir mun bilið á milli lífeyrisþega og launþega á lægsta launataxta breikka mikið á næstu árum. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að lífeyrisþegar fengju sömu hækkun og gert er ráð fyrir í kjarasamningum um lægstu launataxta, en samkvæmt þeim verða þær mánaðargreiðslur 341.000 á næsta ári og 390.000 kr. á mánuði 1. janúar 2022.