150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þó að í 69. gr. laga um almannatryggingar sé gert ráð fyrir því að lífeyrir eigi að hækka um áramót og miða við almennar launahækkanir, ef þær eru hærri en verðlagsbreytingar, er það ekki svo að ekki megi gera betur. Þegar Samfylkingin og Vinstri grænir voru saman í ríkisstjórn og kjarasamningar voru gerðir 2011 fengu lífeyrisþegar líka hækkanir á sama tíma og aðrir fengu sínar kjarabætur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 3,5% hækkun lífeyris um áramótin en þeir sem eru á lægstu launatöxtunum fá 5,7% 1. apríl 2020 og fengu hækkun líka í apríl í ár. Það er gert ráð fyrir því að í janúar 2022 verði þeir sem eru á lægstu launatöxtunum með 390.000 kr. á mánuði. Ef hv. stjórnarliðar ætla að halda sig við þetta, að halda þeim sem eru nú þegar fátækastir enn fátækari miðað við hina, held ég að við séum komin í vond mál.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem nú er sest ný í fjárlaganefnd, hvort hún muni ekki fara yfir þessa stöðu í nefndinni. Við erum með gögn sem sýna okkur að þegar við horfum á kjör öryrkja hefur átt sér stað kjaragliðnun upp á 60% síðustu 20 árin. Ætlar hún að skoða hvort sú þróun sem verið er að boða með fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) muni ekki enn ýta undir það óréttlæti?