150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir greinargóða ræðu sem hann skipti í þrjá þætti. Ég ætla í fyrra andsvari að koma inn á áætlun á raunhæfum forsendum. Frumvarpið tekur mið af spá Hagstofunnar sem er, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, bjartsýnasta spáin. Þá vil ég aðeins fara til baka þegar við í hv. fjárlaganefnd og hv. þingmaður með okkur, í vinnu við endurskoðun stefnu, ræddum um óvissusvigrúm. Þá fengum við aðra aðila, aðra spáaðila, til að koma fyrir nefndina og fara yfir sínar spár og við tókum vissulega tillit til þeirra spáa þegar við enduðum með óvissusvigrúmið niður í 0,8% af vergri landsframleiðslu þannig að við höfum svigrúm til að mæta niðursveiflu, eins og hv. þingmaður veit. Ef mig rekur rétt minni til vildi Viðreisn auka þetta óvissusvigrúm.

Það kann að vera að hér fari á verri veg. Um það er rætt í greinargerð með frumvarpinu, bæði er alþjóðleg óvissa í viðskiptalöndum okkar og svo fór hv. þingmaður ágætlega inn á sterkar vísbendingar sem við eigum alltaf að lesa í eins og í byggingariðnaði o.fl. Þá velti ég fyrir mér: Ef við hefðum mögulega gengið lengra til að mæta svörtustu spám, sem spáðu ef ég man rétt 1,9% samdrætti, hvaða áhrif kynnu slíkar ákvarðanir að hafa t.d. á samspil ríkisfjármálastefnu og peningastefnu við vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabankans?