150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Varðandi það hvernig fjárfestingarmarkmið t.d. á höfuðborgarsvæðinu ríma við loftslagsmarkmiðin er hið augljósasta markmiðið um borgarlínu. Það er ein mikilvægasta fjárfestingin sem við þurfum að ráðast í á suðvesturhorninu og er fagnaðarefni að sjá að það horfir loks til lands með samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ég vona að það takist að hraða þeim markmiðum enn frekar og að setja aukinn metnað í orkuskiptin og nauðsynlega innviðafjárfestingu, ekki hvað síst að horfa til bæði hleðslustöðva til þungaflutninga og til umhverfisvænni orkugjafa hvað það varðar. Hér þurfum við virkilega að bretta upp ermar því að staðreyndin er sú að við náum ekki markmiðum okkar í loftslagsmálum. Losun jókst á síðasta ári og það hillir ekkert undir það að við munum að óbreyttu ná (Forseti hringir.) markmiðum okkar árið 2030. Það verður með ærnum tilkostnaði fyrir ríkissjóð ef okkur tekst ekki að bæta úr.