150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

bráðamóttaka Landspítalans.

[15:37]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir ágæt svör. Ég vil minna á að það er talið eðlilegt viðmið á erlendum bráðamóttökum, á Norðurlöndum sem við viljum bera okkur saman við, að þjónustan sé veitt á u.þ.b. 6–8 klukkustundum. Þau sýndu mér að þessa dagana er sá tími 22 klukkustundir hjá okkur þannig að við erum með fjórfaldan tíma. Við þurfum að taka okkur á í því máli. Ég veit að ráðherrann hefur mikinn áhuga á því. Ég veit að við höfum öll mikinn áhuga á því. Ég held eftir kynninguna í morgun og eftir að hafa verið í velferðarnefnd nánast óslitið síðan 2013 að við þurfum að einblína á vandann er varðar hjúkrunarfræðingana. Ég held að vandinn sé reyndar á heimsmælikvarða, svo mikill er hann. Við þurfum að einblína á þann vanda og gera allt til þess að leysa hann vegna þess að það er það sem mun bæta líðan ótrúlega margra Íslendinga.