150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og met það við hv. þingmann að hann sýnist reiðubúinn til að ræða þetta mál af yfirvegun og ... (HHG: Kærleika.)á grundvelli ígrundunar. Það má alveg taka undir það með hv. þingmanni að misjafnlega getur staðið á í efnahagslífinu eins og hann gerði að umtalsefni. Hann nefndi sérstaklega hrunið 2008–2009 en það voru náttúrlega algjörlega sérstakar aðstæður þannig að langt er til jafnað. Almennt talað er ekki hægt að miða ákvarðanir við skipan fjármála og efnahagsmála við slíkar aðstæður. Aðalverkefnið þar er, og á undanförnum árum hafa stór skref verið stigin í þá átt, að fyrirbyggja slíkt með auknu eftirliti og alls konar þáttum sem lúta að því sem heitir þjóðhagsvarúð.

Ég vil líka beina því til hv. þingmanns að velta fyrir sér þeim hugarheimi sem byggist á því að verðtrygging sé það sem er eðlilegt og liggi til grundvallar. Hún er ekki eðlileg og hún á ekki að liggja til grundvallar. Það á að ræða málið út frá því að hér sé kerfi eins og gerist og gengur í umheiminum og sér í lagi í nágrannalöndum okkar.