150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa skoðað þetta frumvarp sé ég að þarna er alveg gífurlegur fjöldi af gjöldum og hækkunum undir. Miðað við að búið er að reikna út nákvæmlega hverju nýtt skattþrep, lægsta þrepið, eigi að skila til lífeyrisþega spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort það hafi verið reiknað út hve mikið þetta sé í krónutölum, það sem er að koma í skatta og gjöld með þessu. Ég sé að þetta hljóta að vera töluverðar upphæðir og þarna eru að koma ný gjöld eins og urðunargjöld og annað. Þetta á eftir að hafa gífurleg áhrif á þá sem hafa lægst laun og bætur í þessu landi. Af hverju er það ekki reiknað nákvæmlega út hvað það er mikið í krónum talið sem verið er að hækka gjöldin um?