150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ágætisábending hjá hv. þingmanni að ef við myndum á einhverjum tímapunkti sammælast um fasta krónutölufjárhæð í frítekjumark fyrir atvinnutekjur, svo að dæmi sé tekið, væri alveg óvitlaust að láta frítekjumarkið fylgja sama viðmiði og t.d. persónuafslátturinn sem við erum að leggja til að fylgi í framtíðinni framleiðnivexti í landinu. En þetta tiltekna frítekjumark hefur hins vegar verið að skoppa upp og niður. Þegar við ræðum almennt um frítekjumörkin og kostnað við að lyfta þeim erum við annars vegar að velta fyrir okkur hvernig við getum skapað hvatana og lyft undir með fólki sem vill bjarga sér sjálft en við erum líka að horfa á fórnarkostnaðinn sem af því hlýst. Þá meina ég að eftir því sem við lyftum frítekjumarkinu meira dregur meira úr getu okkar til að styðja við þá sem geta ekki aflað sér tekna. Við getum ekki eytt sömu krónunni tvisvar.