150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara hvetja nefndina til að fara vel yfir þessar athugasemdir. Ég vil eins og hv. þingmaður vera raunsær í þessu efni. Ef úrræðin eru ekki til staðar eða lengri tíma tekur að skapa aðstæður fyrir þessa breytingu þarf að hlusta eftir því. Dæmi um ágætisfyrirkomulag sem hefur reynst vel í þessu efni væri skilagjaldið. Það hefur tryggt að í stað þess að fólk kasti frá sér notuðum drykkjarumbúðum erum við með ótrúlega gott endurheimtuhlutfall af drykkjarumbúðum út af fyrirkomulaginu um útlagðan kostnað við kaup og svo endurgreiðslu við skil. Við gætum séð fyrir okkur að ná viðlíka árangri í flokkun gagnvart urðun. En við erum að fara inn á nýtt svið og okkur ber að hlusta eftir því sem framkvæmdaaðilarnir vekja máls á, þar með talin sveitarfélögin og (Forseti hringir.) þeir sem hv. þingmaður vísaði til. Þarna bíður vinna nefndarinnar.