150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Eftir að hafa hlustað á hann velti ég því fyrir mér hvernig hann hefði sjálfur komið fjárlögum saman, ég verð nú eiginlega segja það. Ég spyr: Er eitthvað af þeim tekjutengdu liðum hér sem hann getur fellt sig við eða ekki? Og hvernig myndi hann þá yfir höfuð setja saman slíkt frumvarp? Hann hafði m.a. orð um fjármuni sem varið væri í að koma í veg fyrir skattundanskot — hvaða fjárhæðir telur þingmaðurinn viðunandi að setja í þann málaflokk? Hann nefnir þær 100 milljónir sem hér eru settar í það, ofan á það sem áður hefur verið sett í það, og hefur sýnt sig að hafa skilað árangri, og ég spyr hvað hann telji þurfa þar. Í ljósi þess að hann segir að þetta sé allt ómögulegt hlýtur hann að hafa einhverjar hugmyndir um hvað hann telji heppilegt. Það er erfitt að segja að þetta sé ómögulegt og ekki nægjanlegt og geti ekki skilað nema sáralitlu, ef maður getur ekki stutt það einhverjum rökum. Ég tel reyndar að samtímaeftirlit skili miklum árangri og við höfum séð það þegar skatteftirlitið fer í fyrirtæki og annað slíkt. Það snertir marga og næst til margra á skömmum tíma og það er verið að leggja skatta á aftur í tímann. Það skiptir líka miklu máli, auk þeirra stóru mála sem við höfum séð hin síðustu ár.

Það voru ekki stórkostlegir fjármunir sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fékk til að fylgja eftir Airbnb, en það hefur skilað ótrúlegum árangri. Hann fullyrðir að það komi til með að halda áfram að skila árangri þegar um 400% aukning er í skráningu.

En ég spyr þingmanninn, og vil endilega fá (Forseti hringir.) konkret tillögur um það, hvernig hann sjái fyrir sér að setja saman fjárlög.