150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það var þó kannski fátt um svör annað en það að ekki liggi fyrir rannsóknir á því hvaða skattar skili árangri og hvaða skattar geri það ekki. Ég nefndi Airbnb áðan og ég heyri að þingmaðurinn tekur undir það. Ég er sammála því að þverpólitískt hljótum við að sameinast um að vilja koma í veg fyrir skattundanskot. En það er samt þannig að þeir skattar sem hér eru lagðar til, t.d. flúoreraði skatturinn, eru nálgun sem beitt hefur verið í Danmörku. Við erum ekki að grípa þetta alveg úr lausu lofti. En ég treysti því auðvitað, eins og hv. þingmaður kallar hér eftir, að mjög vel verði farið ofan í þetta í nefndinni. Það er með þetta frumvarp eins og öll önnur að við eigum að fara vel yfir það í nefnd. En við hljótum að þurfa að horfast í augu við það, ef við erum sammála um að við búum við hamfarir og vá af manna völdum, að urðun er ekki góð, hún er bara ekki góð, ég held að við hljótum að geta verið sammála um það. Hvaða hvata aðra en þá sem koma við budduna hjá fólki vill þingmaðurinn leggja út í? Það á að vera mjög íþyngjandi að urða, að mínu mati, af því að það á að hvetja fólk til að flokka.

Þingmaðurinn hlýtur að hafa einhverjar hugmyndir um hvað hann myndi vilja gera, annað en að bíða eftir því að einhverjar niðurstöður liggi fyrir. Getum við beðið, ef við leggjum skattinn ekki á, eftir rannsóknum og eftirfylgni? Séð til hvort það hafi skilað árangri eftir tvö eða þrjú ár? Hvernig eigum við að rannsaka þetta? Við getum alveg gert skoðanakönnun, það vill enginn borga hærri skatta. Það þekkjum við almennt. (Forseti hringir.) Mér finnst það sem sagt er hér svolítið úr lausu lofti gripið og ekki rökstutt. Alveg eins og þingmaðurinn bendir á að sé reyndin í frumvarpinu í frumvarpinu.