150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi fyrri athugasemd hæstv. ráðherra: Ég geri fyrst og fremst athugasemd við það hversu mikið skatttekjur ríkisins aukast á meðan hagvöxtur er ekki meiri en raun ber vitni. Ég teldi raunar að skatttekjurnar ættu við þessar aðstæður jafnvel að aukast heldur hægar en hagvöxturinn. En eins og sakir standa virðast skatttekjur á þessu tímabili aukast mun hraðar en hagvöxtur og þar af leiðandi fela í sér auknar álögur.

Varðandi athugasemd hæstv. ráðherra vegna úrvinnslugjaldsins er áhugavert að heyra hæstv. ráðherra segja að í þessu eigi ekki að felast neyslustýring heldur eingöngu einhvers konar hegðunarbreyting, því að ég veit ekki betur en að þetta hafi verið kynnt á þann hátt að það ætti að draga úr neyslu. En gott og vel. Ég er að sjálfsögðu sammála því að við eigum að stuðla að aukinni endurvinnslu og að því að farið sé með sorp á eins umhverfisvænan hátt og hægt er — og urðun er vissulega ekki sérstaklega umhverfisvæn leið til þess að losna við sorp. En þó að hæstv. ráðherra hafi nefnt að í tilviki þessara flúoreruðu lofttegunda sé til staðar annar valkostur, sem kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðherra, er vandinn sá að annar sambærilegur valkostur er ekki til staðar eins og sakir standa til að fást við það sorp sem nú er urðað. Nú þegar er heilmikil endurvinnsla á þeim efnum sem hægt er að senda í endurvinnslu, þó að það verði að segjast að stór hluti þeirra fari út til Svíþjóðar og annarra landa þar sem einfaldlega er kveikt í draslinu. En við erum ekki búin að byggja upp það sem ég tel að ríkisstjórnin ætti að stuðla að, nútímalega hátæknisorpbrennslu, rétt eins og menn eru með í Ósló, til að mynda, (Forseti hringir.) þar sem sorp er nýtt til orkuframleiðslu, þar sem sorp er brennt á umhverfisvænan hátt.