150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þessi samskipti geti alveg endað á jákvæðum nótum. Ég er sammála hæstv. ráðherra, ef um er að ræða skaðleg efni þar sem önnur síður skaðleg eru valkostur á tvímælalaust að stuðla að því að hin skaðlegri hverfi, séu a.m.k. síður notuð. Varðandi urðunina ætla ég bara að árétta það sem ég nefndi aðeins áðan, að urðun er ekki umhverfisvæn nema síður sé. Hún losar til að mynda gríðarlega mikið af gróðurhúsalofttegundum svoleiðis að þar þarf vissulega aðrar leiðir. En ég myndi þá vilja sjá ríkisstjórnina stuðla að því að þær leiðir yrðu til fremur en að refsa fólki fyrir að þurfa að nýta sér þá einu leið sem er til staðar. Til að mynda — svo að ég ítreki það — eru allar forsendur til þess að hægt sé að fara í sorpbrennslu með miklu umhverfisvænni aðferðum en var fyrir tíu árum, ég tala nú ekki um 20. Það er alveg gjörbreytt tækni, meira að segja er hægt að brenna plast á eins umhverfisvænan hátt og náttúrulegt gas. Raunar er heimilissorp á heildina litið — og þetta eru upplýsingar frá bandarísku umhverfismálastofnuninni — umhverfisvænsta brennsluefni til orkuframleiðslu, augljóslega umhverfisvænna en kol, olía og gas. Vonandi mun ríkisstjórnin stuðla að því að við nýtum tæknina til að búa til fleiri valkosti í flokkun og brennslu fremur en að leggja áfram áherslu á að refsa fólki fyrir að nýta þau einu úrræði sem eru til staðar.