150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þriðja skattþrepið og lækkun tekjuskatts er góðra gjalda vert og ég kann líka að meta útskýringu hæstv. ráðherra á því að breytt sé um viðmið. En ég velti því samt fyrir mér hvers vegna þetta er gert með því að byrja á því að lækka persónuafsláttinn. Það er vel þekkt að hækkun persónuafsláttar hefur meiri jöfnunaráhrif á tekjur lægstu tekjuhópa en sambærileg skattalækkun. Hér er einmitt verið að fara þá leið að lækka persónuafslátt og lækka svo skatt á þann hátt að vissulega fá flestir skattalækkun en hún er mun minni en annars hefði verið. Mér finnst nauðsynlegt að við tölum um þetta í stóra samhenginu vegna þess að þetta virðist vera millistéttarskattalækkun mestan part. Það var í vor talað um að það ætti að frysta hækkun persónuafsláttar í tvö ár. Núna er beinlínis verið að lækka hann. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu hans almennt til persónuafsláttar, bara fræðilega, og til hlutverks hans, hvernig hann sjái fyrir sér að hann eigi að þróast á næstu árum og jafnvel áratugum með hliðsjón af raunvirði og núverandi stöðu.