150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:22]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Veiðileyfagjaldið er sérstök gjaldheimta gagnvart fyrirtækjum sem nýta sér auðlind sem þau eiga ekki. Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að sjávarútvegsfyrirtæki eins og önnur fyrirtæki greiði tekjuskatt, virðisaukaskatt, stimpilgjald, kolefnisgjald o.s.frv. Við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um sérstaka atvinnugrein sem byggir sína tilveru á að nýta sér auðlind sem er í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Það er þetta takmarkaða framboð auðlinda sem getur gert eiganda þeirra kleift að njóta arðsemi sem er umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu. Hagræn renta er skilgreind sem greiðslur til framleiðsluþátta, svo sem fjármagns og vinnuafls, umfram fórnarkostnað og það er umframarðsemin sem er nefnd auðlindarenta. Það verður til eitthvað sem heitir auðlindarenta. Það er það sem við erum að skattleggja eða leggja gjald á. Það er aðgöngumiðinn sem er fullkomlega réttlætanlegt að hafa gagnvart þessari atvinnugrein. Hún er að nýta sér auðlind sem hún á ekki. Hún á ekki þessa auðlind.

Með þeim rökum sem hæstv. ráðherra ber á borð ætti veiðileyfagjald hins vegar að vera núll. Ég tel að hann hafi ekki þá skoðun en með sömu rökum ætti veiðileyfagjaldið tæpast rétt á sér í ljósi þess að sjávarútvegur greiðir að sjálfsögðu öll eðlileg gjöld, tekjuskatt og virðisaukaskatt o.s.frv. En þetta sérstaka gjald er réttlætanlegt í ljósi auðlindarentunnar. Í fyrsta lagi verður til umframarðsemi af því að það er takmarkað framboð auðlinda og númer tvö er þetta sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar. Ég hef einfaldlega bent á það að sjávarútvegur, sem ég ber hlýjar taugar til, er aflögufærari en hæstv. ráðherra telur greinilega vera. Mér finnst óeðlilegt að tekjur ríkissjóðs byggist á veiðileyfagjaldi upp á 1% þegar litið er á heildarfjárlögin. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta allt of lág upphæð, sérstaklega þegar við þurfum á hverri einustu krónu að halda í ríkiskassann til að verja velferðina.