150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þingmanns um að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins hafi orðið undir og að nýtt skattþrep sé til vitnis um það. Ég verð bara að byrja á því að segja að það var einn flokkur sem mest talaði um skattalækkanir fyrir síðustu kosningar og oft var dregið úr trúverðugleika hans þegar skatta bar á góma. Engu að síður er það nú niðurstaðan eftir kjarasamninga, eins og menn þekkja — og við töldum að það hafi verið fyrirsjáanlegt — að atvinnurekendur myndu ekki geta tekið á sig allar þær byrðar sem stéttarfélög kröfðust í kjarabætur. Þess vegna þyrftu skattar að leika stórt hlutverk í því að fá frið á vinnumarkaði. Þegar upp er staðið er komin niðurstaða þar sem skattþrepi er bætt við en eingöngu til þess að tryggja að skattalækkunin, sem er auðvitað aðalmálið, spili saman við stöðuna á vinnumarkaði. Við þetta dregst upp ákveðin skattbyrðilína. Hún teiknast þannig upp að hún kemur neðar, akkúrat á þessu viðkvæma launabili.

Ef hv. þingmaður er að tala fyrir því að við hefðum farið aðra leið er hann beinlínis að tala fyrir skattkerfisbreytingu sem annaðhvort myndi skila sér miklu lengra upp skattstigann og kosta miklu meira eða einfaldlega ekki skila þeim ávinningi til lágtekjuhópanna sem þessi leið gerir. Og það er í raun og veru spurningin sem situr eftir: Er hv. þingmaður að tala um að við hefðum frekar átt að fara leið persónuafsláttar sem hefði skilað minna til tekjulægstu hópanna og meiru upp allan launastigann eða hvað er í raun og veru verið að leggja til?