150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég átti við í ræðu minni með því að hugmyndafræði Sjálfstæðismanna hefði orðið undir í ríkisstjórninni hvað skattamál varðaði er að ég held að nokkuð augljóst sé að flokkur sem hefur talað fyrir því að einfalda skattkerfið eins og Sjálfstæðisflokkurinn, margsinnis talað þannig, ályktanir landsfundar o.s.frv., er núna með breytingunum að flækja skattkerfið. Ég held að það sé ósköp skýrt að hér hafa Sjálfstæðismenn ekki framfylgt þeirri stefnu sem hefur margsinnis verið ályktað um á þeirra vettvangi.

Þegar kemur að því að leiðrétta kjör hinna lægst launuðu, sem er mjög mikilvægt í mínum huga og okkar Miðflokksmanna, eru til aðrar leiðir. Það er til persónuafslátturinn og skattleysismörkin og sjálfsagt að skoða þær leiðir. Tilgangurinn er sá að lækka skatta á lægstu tekjur og það þarf einfaldlega að setja saman góðan sérfræðingahóp til að fara yfir hvað sé auðveldast í þeim efnum. Þannig að ég segi við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Var þetta skoðað nákvæmlega, eins og t.d. skattleysismörkin? Sjálfur hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagt, bara fyrir ekki svo löngu síðan, að hann teldi leið persónuafsláttar vera mjög færa og skynsamlega. Mitt innlegg í þessa umræðu er að það eigi að skoða alla möguleika, vera opinn fyrir ýmsum hugmyndum og breytingum, en ekki fara þá leið sem flækir kerfið, eykur kostnað ríkisins, dregur úr gagnsæi o.s.frv. En ég ítreka engu að síður að það er mikilvægt að vinna að sameiginlegu markmiði sem við höfum öll, þ.e. að lækka skatta á lægstu laun.