150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Þetta er kunnuglegt mál sem við þekkjum, hér er verið að lækka bankaskattinn. Rökin hafa verið þau að bankarnir séu ekki samkeppnisfærir. Mér er minnisstætt að ekki fyrir svo löngu, síðasta vetur, kom bankastjóri eins viðskiptabankanna fyrir fjárlaganefnd og fór yfir það hversu svakalega erfið staðan væri þegar kæmi að samkeppnisumhverfi og það væri algjörlega nauðsynlegt að lækka þennan skatt. Síðan lét sá bankastjóri af störfum og fékk 150 millj. kr. starfslokasamning. Það má því deila um það hversu erfið staðan er hjá bönkunum og hvernig þessi skattur setur þeim stólinn fyrir dyrnar í þeim efnum. En það sem er kannski áhyggjuefnið í mínum huga hvað þetta varðar er að lagt er upp með það hér, og kemur fram í greinargerð, að þetta sé gert með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni að þetta væri skýrasta tækið til að draga úr vaxtamun.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að bankarnir komi til með að lækka gjöld á neytendur og lækka vexti ef þessi skattur verður lækkaður? Höfum við einhverja tryggingu fyrir því? Ég held að við höfum enga tryggingu fyrir því. Þess vegna spyr ég: Er ekki eðlilegt að tímasetja þessa lækkun, að hún komi ekki til framkvæmda nema við sjáum það hreint út að gjöldin hafi lækkað á neytendur? Það verða að vera einhver úrræði. Við getum ekki bara vonað að þetta komi til með að lækka. Ef það er einhver óskhyggja að gjöldin lækki er náttúrlega ótækt að vera að lækka svona skatt, ef það er tilgangurinn með honum.