150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, hún myndi ekki taka við verkefnum dómstóla. Það er hins vegar ekki þannig að dómstólar geti í reynd haft það eftirlit með lögreglu sem hér er sóst eftir að verði viðhaft. Ég get því miður ekki að því gert, virðulegi forseti, ef tilgangur stofnunarinnar er hv. þingmanni óljós eftir ræðu mína og lestur greinargerðarinnar sem er nú heldur ítarleg, ég kann ekki að útskýra tilganginn betur. Hvað varðar dómstólana er ágætisdæmi, sem ég nefndi reyndar í ræðu minni, sem varðar hvernig hegðun lögreglumanna er stundum gagnvart líkamsleit. Það eru engin lög brotin þegar lögreglumaður hótar borgara að taka hann niður á stöðu og bíða þar eftir dómsúrskurði. Jafnvel óháð því hvort dómarinn segi síðan nei, það á ekki að leita á þessum einstaklingi, er samt alveg heimilt að fara með hann niður á stöð. Þannig er það verkfæri notað til þess að neyða borgarann, í reynd, miðað við aðstæður, til þess að samþykkja líkamsleit þegar hið rétta er að lögreglumaður á ekkert að vera að leita á borgara nema hann hafi til þess almennilegar ástæður. Vegna þessa fyrirkomulags, sem er óhjákvæmilegt og þarf að vera til staðar, geta lögreglumenn alltaf misbeitt valdi sínu með ýmsu geðþóttamati sem dómarar geta ekki tekist á við með því einfaldlega að hafna einni og einni líkamsleit.

Svo spurði hv. þingmaður einnig um hversu fjölmenn sú stofnun yrði. Ég get ekki tilgreint neina nákvæma tölu. Hún yrði ekkert endilega mikið fjölmennari en t.d. nefnd um eftirlit með lögreglu. Það er hins vegar mikilvægt að þessi stofnun sé almennilega sjálfstæð og ekki t.d. undir dómsmálaráðuneytinu, að hún hafi rannsóknarheimildir og að hún hafi viðurlagaheimildir sem núverandi nefnd hefur ekki en ég sé ekki fram á að hún yrði viðamikil eða fjölmenn. Ég sé það ekki fyrir mér.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns. En annars kem ég því bara að í seinna andsvari.