150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hryggja hv. þingmann en það ofurtraust til lögreglunnar sem mér finnst birtast í orðum hv. þingmanns er einfaldlega ekki fyrir hendi alls staðar. Það er fullt af borgurum sem upplifir víst áreiti af hálfu lögreglumanna. Bara víst. Það þýðir ekkert að vera móðgaður yfir því, það er bara upplifun þeirra borgara og við því á að bregðast. Þessi tillaga er samt ekki lögð fram beinlínis á þeim forsendum heldur fyrst og fremst þeim forsendum að lögreglan er stofnun sem hefur heimildir til líkamlegrar valdbeitingar gagnvart borgurunum og getur gert þessa hluti og þarf að geta gert þá. Þá er eðlilegt að eftirlit sé með því valdi. Þetta er ekkert mikið flóknara en það.

Hv. þingmaður telur lögregluna beita ýtrustu hófsemi. Eflaust oftast og vonandi oftast en ég hef bara orðið vitni að tilfellum þar sem svo er ekki og hef heyrt heilan haug af sögum þar sem svo er ekki. Það þýðir ekkert að vera móðgaður yfir því. Það er bara staðan sem ríkir alltaf þegar stofnanir hafa vald yfir borgurunum. Alltaf. Þess vegna eiga alltaf að vera aðhalds- og mótvægisstofnanir eins og sjálfstætt eftirlit með lögreglunni. (Forseti hringir.) Í því felst enginn áfellisdómur gagnvart lögreglunni.