150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að ég geti svarað öllum spurningum hv. þingmanns ítarlega, alla vega í fyrra andsvari. En það er rétt sem hv. þingmaður segir að lögreglan vill hafa traust. Það er alveg rétt og það er samdóma álit allra lögreglumanna sem ég talað við um þetta og allra sem þekkja til. Hv. þingmaður spyr hvað vanti upp á. Það eru jú ýmsar leiðir. Það eru ríkissaksóknari og héraðssaksóknari og innri ferlar hjá lögreglu og slíkt. En hv. þingmaður nefndi einnig umboðsmanns Alþingis. Það vill svo til að það var einmitt í bréfi umboðsmanns Alþingis árið 2013 þar sem því var varpað fram hvort ekki þyrfti meira eftirlit með lögreglunni. Í kjölfarið á þeirri umfjöllun var m.a. sett á fót nefndin um eftirlit með lögreglu sem er enn þá að störfum og hefur hún skilað tveimur ársskýrslum. Allt gott er að segja um störf þeirrar nefndar út frá hlutverkinu sem henni er ætlað samkvæmt lögunum. En það sést á skýrslunum að hún hefur ekki í fyrsta lagi fjárhagslega burði og í öðru lagi ekki heimildirnar til að kafa almennilega ofan í mál sem þarf að ræða betur og það sést í skýrslunum. Ég verð bara að vísa til skýrslna þeirrar nefndar til að svara hv. þingmanni með það.

Síðan er líka hitt sem er pólitíska spurningin: Hversu mikið eftirlit viljum við hafa? Það er alltaf hægt að segja bara að það sé alveg nóg. Það er alltaf hægt að benda á að það séu til dómstólar í landinu og það sé ákæruvald hjá héraðssaksóknara. En er það nóg til þess að ná þeim áhrifum á störf lögreglunnar og traustsins til hennar sem við viljum fá? Ekki að mínum dómi. Ég heyri enn þá of margar sögur af því að lögreglumenn komi ekki fram með þeim hætti sem ég vil að lögreglumenn komi fram við borgara og mig og hv. þingmann og alla sem okkur þykir vænt um og fleiri til. Það er líka pólitíska spurningin á bak við þetta. Er að okkar eigin mati nóg að gert eins og staðan er í dag? Nei, ekki að mínu mati. Ég bendi fólki sem telur sig hafa orðið fyrir einhverju af hálfu lögreglunnar á þessa nefnd og ég hef hvatt fólk til að tala við hana.

Ég verð að halda áfram í seinna svari mínu, virðulegi forseti, en það er ljóst af minni reynslu af samtölum við borgarana (Forseti hringir.) að fyrirkomulagið eins og það er í dag er einfaldlega ekki nóg.